30. mar. 2006

Staðreynd

Til að meika það á Íslandi þá þarftu annað hvort að hafa mikla hæfileika.......eða Einar Bárðason

25. mar. 2006

Nokkrar fréttir frá Aarhus

Ótrúlegt hvað hvítur sloppur og nafnspjald getur gert mikið!
Núna á mánudaginn byrjaði ég í 6 vikna kúrs á sjúkrahúsinu í Viborg. Þarna vorum við 12 manna hópur af nemum mættir með skólatöskurnar á bakinu með ferköntuð augu eftir lestur síðasta árs. Þar var okkur hent í græn föt og hvítan læknaslopp með fínu nafnspjaldi, vasarnir fylltir af hlustunarpípu, litlu vasaljósi, reflex hamri og alls konar blaðsneflum og handbókum...og uppúr þessum læknanördahóp reis allt í einu alvöru læknanemar!
Svo var okkur dreift á hinar ýmissu deildir á sjúkrahúsinu og þar með byrjuðum við að ráfa um ganga sjúkrahússins í leit að þekkingu eins og vampírur í leit að blóði.
Í mínu tilfelli byrja ég fyrstu 3 vikurnar á bæklunarskurðlækningardeild og það hefur verið ekkert nema spennandi. Maður er búinn að fylgjast með fullt af aðgerðum, vera heilan dag á bráðamóttökunni og búinn að þvælast alls staðar á þessu sjúkrahúsi...ég er búinn að komast að því að ef ég er í hvítum slopp með nafnspjald sem segir "lægestuderende" þá kemst ég hvert sem er hehehehe :)
En auðvitað er galli á gjöf Njarðar...ég þarf að vakna klukkan 5 á hverjum morgni til að taka strætó á lestarstöðina og þaðan tek ég lestina til Viborg...sem tekur ca 1 klst 15 min. Guð má vita af hverju maður fær ekki að vera á sjúkrahúsina hérna rétt hjá...sem er í 5 min hjólafjarlægð! Auðvitað þurfa Danirnir alltaf að gera hlutina svo flókna!
Stundum er ég ekki alveg viss hvað Danir halda um Ísland...rúmlega helmingur af þeim Dönum sem ég hef hitt hafa spurt mig hvort það sé ekki hægt að læra læknisfræði á Íslandi...og þegar ég svara játandi þá kemur pínu undrunarsvipur á þá og "af hverju ertu að læra í Danmörku" spurningin. Það kemur mörgum greinilega á óvart að það sé hægt að læra þetta heima.
En ég held að ég rakst á toppinn í vikunni. Læknirinn sem sér um okkur á spítalanum var að sýna okku hvar fötin eru geymd og svoleiðis...svo er hann að láta okkur fá hvíta tréskó sem allir á spítalanum ganga í. Þetta eru alveg svakalega óþægilegir skór og þegar við erum að máta þá sem passa okkur best þá hann minnist svona á það að þetta séu ekki þeir þægilegustu skór í heimi o.s.frv.
En þá spyr hann mig hvort við Íslendingar göngum í tréskóm heima á Íslandi! Og hvort ég væri kannski vanur að ganga í svona skóm!
Ég hélt að ég yrði ekki eldri, auðvitað hélt ég að hann væri að grínast maðurinn.....en neiiiiii, þetta var ekkert grín, hann hélt í alvörunni að það væri algengt að við Íslendingar gengu í tréskóm....................fífl!
Þegar ég var lítill hugsaði ég stundum hvort ég gæti verið með vampírublóð í mér. Kannski var það af því að mér fannst svo gaman að horfa á vampírumyndir og er með ofvirkt ímyndunarafl...en við skulum ekki pæla of mikið í svona hlutum :) . Ástæðan er sú að ég hef alltaf verið svo rosalega næturmanneskja. Það er ekki fyrr en á kvöldin sem ég kemst í almennilegt stuð, og ég vakna aldrei almennilega fyrr en eftir hádegismat sama hversu snemma ég vakna.
Og það hefur svo sannarlega reynt á þetta þegar maður þarf að vakna klukkan 5 á hverjum morgni, og það hefur ekki verið auðvelt að breyta líkamsklukkunni. En það hefur gengið ágætlega, mættur snemma í rúmið klukkan 20:30 og sofnaður uppúr níu...aldrei á æfinni hef ég gert það áður. Og ég vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að gera það aftur.
Svo í morgunn þegar ég ætlaði svoleiðis að njóta þess að sofa út eftir erfiða viku þá vaknaði ég alveg útsofinn og eldhress klukkan 08:00 .... og það var ekki mjög vinsælt hinum megin í rúminu hehe :)
En nóg í bili...klukkan er að nálgast miðnætti, háttatími komin ;)

4. mar. 2006

Enn annað laugardagskvöldið...þremur vikum seinna

Þegar ég byrja að blogga núna þá vil ég segja að það sé ekkert að frétta...en þegar ég hugsa betur þá er heilmikið að frétta. Ég hef oft hugsað út í það hvernig bloggari maður vill vera, allir hafa sinn stíl og sumir eru bara skemmtilegri en aðrir. Auðvitað vill maður vera algjör snilldarbloggari sem dregur að sér lesendur frá öllum áttum...en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þá er ég ánægður með alla þá lesendur sem ég hef :)
En hvernig blogg eru skemmtilegust...það eru til margar tegundir, eins og t.d:
1. Athafnamaðurinn
Þessar bloggfærslur einkennast af setningum eins og: Í gær fór ég í bíó með þessum og svo fórum við á rúntinn með þessum og síðan hittum við þennan sem var rosa hress og þegar ég vaknaði hringdi ég í þennan og við fórum út að borða o.s.frv.
Sem sagt aðeins staðreyndir hvað hefur drifið á síðustu daga. Mér finnst þessar færslur svakalega leiðinlegar hjá fólki sem ég þekki ekki vel....af hverju....jú mér er alveg sama...punktur.
En á sama tíma eru þetta nauðsynlegar og oft skemmtilegar færslur hjá fólki sem maður þekkir mjög vel og hittir oft...þá segir maður t.d. við næsta hitting: Já þú fórst í bíó um helgina, hvernig var myndin annars? Strax er maður komin með umræðuefni...og það er alltaf gott mál.
Svo er þetta nauðsynleg blogg fyrir fjölskyldumeðlimi sem vilja fylgjast með því hvað maður er að bralla...
2. Pólitíkusinn
Þessi veit alltaf miklu betur en pólitíkusarnir og hefur alltaf svörin við öllu. Ef maður hefur áhuga á pólitík þá er þetta alltaf skemmtileg lesning og gaman að kommenta og koma af stað rökræðum...ef ekki þá hættir maður að lesa eftir þrjú orð.
3. Tónlistar/kvikmynda-gúrúinn
Hérna eru annað hvort kvikmyndir eða tónlist á matseðlinum. Ekki flókið, annað hvort er maður inn eða ekki.
4. Hugleiðarinn
Þetta er oftast skemmtilegustu færslurnar mínar. Hérna eru skemmtilegar pælingar um lífið og tilveruna eða fyndnar hugleiðingar um eitthvað hversdagslegt sem kemur manni til að hlæja. Mér finnst oft ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig fólk hugsar stundum, oft les maður pælingar sem manni hafði aldrei pælt í áður þrátt fyrir að það hefur verið fyrir framan mann alla sína ævi....maður opnaði bara aldrei augun fyrir því og hugsaði aldrei út í það...einnig sér maður í eitt augnablik vel inn í hugarheim þess sem er að blogga...þess vegna eru þetta uppáhaldsfærslurnar mínar, hressir upp á tilveruna.
5. b2-wannabe
Hér er aðeins eitt markmið...að komast inn á b2.is eða einhverja álíka tenglasíðu til að öðlast lítin celeb-titil á litla Íslandi. Og af hverju ekki, þetta tókst hjá t.d. fazmo lúðunum...þeir hönnuðu fína heimasíðu, keyptu einfalt og gott lén, birtu myndir af gellum og sjálfum sér berum að ofan eftir milljón ljósatíma og lyftingar og allt í einu eru þeir komnir með celeb stimpil sem þeir nota til að komast í VIP-röðina á Hverfis eða Oliver...sem er toppurinn á tilverunni hjá þeim...ooooohhhhh hvað ég vildi að ég væri þeir...
6. Súper gelgjurnar
Smá tískubylgja sem kom upp fyrir nokkru síðan...sem betur fer eru fólk að hætta taka mark á þessum stelpum..ég þarf ekki að segja meira.
7. Kvikmyndagetraunin hans Sævars (www.kjammi.blogspot.com)
Klassík sem ég er orðinn háður...veit ekki hversu oft sem ég hef verið að læra og séð nýjustu getraunina og fengið fiðring við tilhugsunina að reyna leysa hana.
6. Kaflaskipt þema hjá Jóeli (www.joelkristinn.blogspot.com)
Einföld og skemmtileg pæling...þú segir allt sem þú hefur að segja og meira að segja skiptir því í kafla fyrir mann. Auðvelt að lesa og þægilegt...sérstaklega þegar maður er að flýta sér, er óþolinmóður eða er að lesa 20. bloggið sitt í röð.
Innskot:
Af hverju er auðveldara að lesa kaflaskiptan texta en eina laaaaanga málsgrein? Þegar ég sé eina samfellda málsgrein sem er a.m.k. 2000 orð þá nenni ég hreinlega ekki að klára hana...en ef henni er skipt í 10 hluta þá er það allta annað mál! Mikið er maður ruglaður...Bóas þú ert kannski með einhverja skýringu á þessu?
Einnig er þetta frábært þegar maður er að kommenta...já ég er alveg sammála þér í kafla fjögur o.s.frv. Hér er einnig hægt að koma með öll blogg þema í eitt blogg, allt í einu pakka...algjör snilld þegar maður hugsar út í það...
---------------------------
Ég man ekki fleiri í augnablikinu, ef þið getið komið með fleiri þá endilega kommentið og segið frá!
En svo eru mörg blogg blanda af þessum ofannefndu...þannig að oftast fær maður góðan koktail :)
En að lokum þá kemur stutt af því sem ég hef verið að bralla síðustu 3 vikurnar:
  • Flutti í nýja íbúð í Skejby (Sjálfir flutningarnir stóðu í eina klukkustund sem hlýtur að vera heimsmet!)
  • Málaði (að hluta) gömlu íbúðina okkar í Trige.
  • Málaði alla nýju íbúðina með frábærum aðstoðarmönnum á tveimur dögum.
  • Er á leiðinni í klinik í skólanum....þar sem ég verð að elta lækna út um allt á sjúkrahúsi að fylgjast með aðgerðum og öllu sem gerist þar...spennandi!
  • Mamma og pabbi komu í heimsókn, fórum t.d. að skoða sumarbústað konungsfjölskyldunnar og borðuðum æðislegan grískan mat...erfitt að toppa það.
  • Keypti fyrsta sófann minn!
  • Keypti fyrstu ryksguguna mína!

Og að allra lokum...þá fór ég í fyrsta skipti á ævinni einn í bíó í kvöld. Málið var þannig með vexti að Hildur hélt lítil stelpukvöld áðan og þá var ég einfaldlega rekinn út...þannig að ég endaði á því að fara einn í bæinn, og þrátt fyrir það sem ég hafði ímyndað mér þá endaði þetta í frábæru kvöldi hjá mér.

Ég fór í bæinn, náði mér í eitt stykki fréttablað, fékk mér kebab og blaðaði í blaðinu, fór síðan á kaffihús og fékk mér expresso og kláraði blaðið yfir skemmtilegri tónlist...og þegar blaðið var búið var kominn tími á kvikmyndina...s.s. það rættist mjög vel úr kvöldinu þrátt fyrir miklar áhyggjur hjá mér. Kannski maður fari oftar einn í bíó?

En nú sit ég heima í miðju stelpukvöldi þar sem þær slá á frábæra tóna yfir Sing Star...ég nýt þess að vera fluga á vegg núna hahahahaha...