26. nóv. 2005

Jájá

Afsakið bloggletina kæru vinir. Í síðustu viku var ég önnum kafinn í sjónvarpsglápi fyrir framan 48" breiðtjaldssjónvarp með ca 50 stöðvar. Við vorum s.s. í Köben alla síðustu viku að passa uppá hús frænku hennar Hildar. Og síðan ég kom heim þá hef ég verið önnum kafinn ofan í bókunum. Eftir minna en mánuð er stóra anatomiuprófið og stressið og pressan er byrjuð að banka dyrnar.
En úr þessu yfir í annað. Ein skondin saga sem ég mundi eftir sem mig langar að deila með ykkur. Um daginn kom nágranni minn upp að mér og spurði mig hvort ég reykti. Ég svaraði því að sjálfsögðu neitandi og velti því fyrir mér af hverju hann spurði að þessu allt í einu. Hann sagði s.s. að hafa séð mig nokkrum dögum áður standandi hérna fyrir utan í einhverju skúmaskoti með eitthvað glóandi í hendinni, og hann var alveg handviss um að það var ég. Þess vegna hélt hann að ég væri að laumast til að reykja án þess að Hildur vissi.
Það tók mig ca. korter að sannfæra hann um að þetta hafi ekki verið ég og að ég hafði ekki hugmynd um hvað hann væri að tala um. Að lokum gaf hann sig og sleppti mér lausum ;)
Svo viku seinna dróg hann mig inn í eldhús hjá sér svo að Hildur myndi ekki heyra og spurði mig aftur út í þetta. Þá hafði hann hugsað betur út í þetta og greinilega ekki trúað mér í fyrra skiptið og hefði greinilega ákveðið að spyrja mig aftur. En að þessu sinni hélt hann ekki að þetta hafði verið sígaretta....í þetta skipti hélt hann að ég hafði verið að reykja hass!!!
Ég vissi ekki hvert ég ætlaði að fara, hann hélt virkilega að ég væri að reykja hass. Og svo starði hann á mig með galopin augu bíðandi eftir hreinskilnu svari. Svo fylgdi ræða um að hann skildi mig mjög vel útaf öllu prófstessinu og álaginu og að honum væri alveg sama og blablalbalba...alveg eins og hann væri alveg sannfærður um að hann hafði rétt fyrir sér.
Í þetta skipti tók það mig ca. hálftíma að sannfæra hann um að hann hafði rangt fyrir sér...og ég held bye the way að hann trúir mér ekki ennþá.
Æ, æ hvar mun þetta allt enda...

8. nóv. 2005

Jæja

Jæja enginn var greinilega sammála mér með tvífarann........jaaaa annað hvort það eða enginn nennir að kíkja hingað. Sem sagt fannst mér þessi stelpa alveg eins og Erla Sússanna.
Ekki mikið er búið að gerast síðustu daga hjá mér, er meira eða minna búinn að vera inná loftlausu bókasafni allan daginn. Soldið fyndið atvik gerðist um daginn í ræktinni. Ég var s.s. bara að sinna mína, pumpandi byssurnar í gríð og erg þegar ég tek eftir því að það sé að taka upp einhvern sjónvarpsþátt í salnumm. Það er s.s. myndatökumaður og nokkrir tæknimenn og svo einn massi sem var að tala í myndavélina.
Gerði ég mig allra besta að forðast þetta tv crew, skipulagði hringinn minn og tækin gaumgæfilega samkvæmt kúnstarinnar útreikningum til þess að tryggja lágmarkslíkur á því að vera fyrir þessum gaurum. Oft þurfti ég að hraða mér í gegnum viss tæki, jafnvel að hætta fyrir og láta mig hverfa bakvið súlu og lauma mér í burtu áður en myndavélin kæmi.....því að ég var sko ekki að fara lenda í einhverju viðtali eða einhverjum andskotanum!
En þrátt fyrir allt mitt erfiði gekk þetta ekki eftir því að gaur kom upp að mér hinum meginn í salinn og spurði mig hvort ég vildi ekki gera honum greiða með því að koma til þeirra og vera í einu tæki á meðan þeir væru að taka upp. Bakgrunnurinn var víst alltof tómlegur sagði hann. Ég sló bara til og byrjaði að fleksa tvíhöfðann í tækinu þar sem myndavélin byrjaði nánast framan í mér og færði sig síðan hægt út og inn eftir ganginum með þar sem massinn tók við henni.
Ég hef greinilega leikarablóð í mér því að þetta tók aðeins þrjár tökur.....og eins gott af því að ég var alveg að verða búinn í handleggjunum!

30. okt. 2005

Tvífari ársins


Sá þessa auglýsingu í strætó...lýkist hún einhverjum úr breiðholtinu?

24. okt. 2005

Töffari


Hversu svalur er þessi gaur!

18. okt. 2005

Já nú eru jólin

Ég frétti það í dag að það er byrjað að hengja jólaskraut upp í miðbænum. Hvað er að eiginlega að gerast, október er rétt svo hálfnaður! Þetta er alltof snemmt fyrir jólaskraut...ég hreinlega neita að stíga fæti í miðbæinn fyrr en í byrjun desember!
En yfir í annað, nú geta mannfræðiathuganir mínar haldið áfram. Ástæðan er sú að næstu fimm dagana mun Þjóðverji (vinkona Hildar) dvelja hjá okkur. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem ég hitti Þjóðverja og munu næstu dagar gefa mér næg tækifæri fyrir rannsóknir mínar. Það sem ég veit um Þjóðverja er að:
  • Þeir eru bestu bílstjórar í heimi.
  • Hafa autoban þar sem er engin hraðatakmörk.
  • Þeir eru nískastir í heimi.
  • Maður má ekki minnast á Seinni Heimstyrjöld eða Hitler við þá.
  • Framleiða góða bjóra.
  • Eru með gott fótboltalið og eru með hörku íþróttamenn á mörgum sviðum (þýsku kerlingarnar í kúluvarpi eru svakalegar! Aðeins rússnesku Olgurnar geta skákað við þeim.)
  • Þýskar konur eru helvíti loðugar (ég mun samt ekki reyna að sannreyna þessa staðreynd núna)
  • Rammstein.
  • Dubba allt erlent sjónvarpsefni.
  • Einstein.

Man ekki fleira í augnablikinu, endilega látið mig vita ef það er eitthvað fleira við þjóðverja ;)

16. okt. 2005

10.000!

Hver verður númer 10.000!

15. okt. 2005

Nýr erfingi

Í gær eignaðir Danmörk nýjan prins og nú snýst gjörsamlega allt danskt samfélag um þessa fæðingu. Ég hef oft heyrt um það hvernig danska þjóðin dýrkar konungsfjölskyldu sína en það var ekki fyrr en ég upplifði konunglegt brúðkaup hérna í fyrra og svo konunglega fæðingu hér í Danmörku að ég áttaði mig til fullnustu hversu mikil sú lotning er.
Daginn sem brúðkaupið var hætti gjörsamlega alla danska þjóðin að vinna og safnaðist fyrir framan sjónvarpsskjáina og pöbbanna til að fylgjast með athöfn sem byrjaði snemma um morgun og endaði ekki fyrr en fór að kvölda. Fréttamenn voru á hverju horni til að ná myndum af fjölskyldunni á meðan aðrir fréttamenn tóku viðtöl við almúgan út um allt land til að heyra hvað þeim fannst um athöfnina, og að sjálfsögðu voru allir alveg í skýjunum!
Það var síðan í gær þegar ég kveiki á sjónvarpinu klukkan 11 í gær þá er bein útsending fyrir utan Rigshospitalet í Köben. Ekki vissi ég hvað var að gerast en fréttamaðurinn sagði að krónprinsessan væri kannski inni á spítalanum, kannski var fæðing byrjuð og kannski er nýr erfingi kominn í heiminn.......en þetta voru greinilega óstaðfestir orðrómar því að ekkert var 100%, en það stoppaði ekki hundruðir manna að safnast fyrir utan sjúkrahúsið.
Svo var tekið viðtal við konu sem var að koma út úr sjúkrahúsinu og hún sagði frá því af miklum móð að hún hafði heyrt hjúkrunarkonur tala saman á leiðinni út þar sem þær sögðu að konungleg fæðing væri hafin og að hún væri annað hvort á 3. eða 4. hæð. Ég gat ekki annað að líkt þessari fréttamennsku við dæmigerða bandaríska hasafréttamennsku þar sem sitið er fyrir stjörnunum.
Eftir þetta slökkti ég bara á þessu og fór gera eitthvað annað því að þetta var langt frá því að vekja minn áhuga.
Nú er lítill prins fæddur og öll Danmörk er gjörsamlega heltekinn í gleði og fögnuði. Frá mínu sjónarhorni finnst mér þetta frekar skrýtið hvernig ein fjölskylda getur haft svona mikil áhrif á fólkið í landinu enda erum við Íslendingar ekki aldir upp við neina svona dýrkun af neinu tagi...ég meina, við köllum forsetan okkar Óla grís!
Og það er s.s. ekkert að því, ég verð að segja að ég er bara mjög sáttur að ekki vera alin upp við svona dýrkun. Mér finnst þetta stundum vera svolítil bilun. Það er gott að vera Íslendingur.
Að lokum vil ég bara óska dönsku þjóðinni kærlega til hamingju með nýjan erfinga.
Með kærri kveðju,
Íslendingurinn sem skilur ekki kóngafólk

13. okt. 2005

Steríótýpur og blindramerkingar

Nú er ég búinn að æfa í líkamsræktarstöð í þrjár vikur. Ég er þessi týpa sem finnst ótrúlega gaman að spá í öðru fólki og hentar þessi vettvangur einkar vel þegar að þessum málum kemur. Undanfarna daga hef ég svona reynt að finna út hvernig þessi danska steríótýpa er í svona æfingasölum, þetta hefur gengið upp og niður en ég held að ég sé a.m.k. búinn að finna eina góða strákasteríótýpu.
Fatnaður þessara stráka einkennist af þröngum og helst svörtum hlýrabol, kvartbuxum og sandölum, þá helst þessir sem eru svona þröngir á milli tánna. Hárið er sleikt með geli og greitt aftur og bakvið eyrum, oftar en ekki eru þeir líka með strípur eða litað hár. Ganga þessir strákar um fleksandi biceptinn oft og títt fyrir framan speglanna og eru alltaf að gera maga-æfingar. Einnig ferðast þeir títt um í hópum, oftast tveir eða þrír saman þar sem þeir hvetja hvorn annan áfram í þeim æfingum sem liggja frammi fyrir þeim. Ekki eyðileggur það að hafa eitthvers konar skart á sér, gullkeðju eða gullhring og jafnvel rakaðir undir höndunum....já þið heyrðuð rétt.....sumir eru rakaðir undir höndunum.
Þetta eru niðurstöður mínar eftir þriggja vikna atferlisathugun í Equinox, ég hef ekki ennþá fundið góða stelpusteríótýpu, þær virðast vera fjölbreyttari og ekki stendur ennþá nein tegund uppúr. Kannski skila ég inn aftur skýrslu um mannfræðiathuganir mínar hérna í Aarhus og vonandi þá verð ég búinn að ráða úr þessu vandamáli.
Yfir í allt annað...í dag var ég að lesa moggann og rakst á frétt um blindramerkingu HÍ sem er í gangi þessa daganna. Ég tek mér það bessaleyfi að birta smá bút úr greininni (er það ólöglegt?):

Fyrstu merkingarnar voru settar upp í aðalbyggingu Háskólans í gær og voru tvær blindar stúlkur úr 9. og 10. bekk, þær Dagný ********dóttir og Ester ******dóttir, fengnar til að merkja stofur, skrifstofur og salerni í byggingunni.
Þegar ég las þetta gat ég ekki annað en grátið úr hlátri enda sá ég aðeins fyrir mér tvær litlar stúlkur labbandi um HÍ með blindrastafinn sinn þreifandi á veggjum og hurðum í tilraun að finna þá staði sem á að merkja. Æ...æ...já þetta fannst mér sko fyndið...
Þar til næst bið ég sérstaklega að heilsa öllum heima fyrir...verið blessuð og sæl.

11. okt. 2005

Nú er illt í efni

Já góðir hálsar, í gær kom Hildur heim með eitt stykki gítar heim.
Og þar sem hún kann ekkert á þetta hljóðfæri þýðir það bara eitt fyrir mig. Endalaust gítarglamur og falskar nótur næstu mánuðina.
Kannski verð ég meira uppí skóla en ég hef verið undanfarið...
En ég fæ nú vonandi að hlusta á fagra tóna í staðinn þegar ég er orðinn gamall kall sitjandi í hægindastólnum mínum ;)

3. okt. 2005

Hörku púl!

Já þá er maður byrjaður að æfa í líkamsræktarstöðinni Equinox. Þetta gekk ekki mikið lengur þessi leti í manni og þá þýðir ekkert annað en að hrista hana af sér!
En í hvert skipti sem ég fer þá hugsa ég allan tíman hversu mikið ég væri miklu frekar til í að vera öskrandi og sparkandi út í loftið og reyna að pína mig í spígatt (sem er bye the way eitthvað sem ég skal geta einu sinn á ævinni!).
En æfingarnar eru misgóðar sem maður tekur, stundum er maður í þvílíku stuði og pumpar eins og Jón Páll en stundum er einhver leti í manni og maður ákveður að taka bara lengri gufu í staðinn. Dagurinn í dag var einmitt ekki nógu góður en ekki útaf neinni helvítis leti.
Ég fór sérferð niður í bæ til að taka góða æfingu um þrjú leytið eftir þægilegan mánudag sem innfól húsverk, lærdóm og smá hangs. Er ég mæti inn í klefann byrja ég að klæða mig í og tek uppúr töskunni nýju fínu Nike svitaböndin mín sem eiga sko eftir að gera mig að algjörum töffara inní tækjasalnum. Svo leita ég eftir stuttbuxunum mínum.....og viti menn........engar stuttbuxur. Og þarna stend ég í klefanum á nærbuxunum hugsandi hvernig hægt sé að redda þessu. Eftir smá umhugsunartíma ákvað ég bara að hætta þessu rugli og fara beint í gufu, hellti 6 ausum á steinana slappaði bara af, og eftir þetta tók ég bara tvöfalda góða íslenska sturtu........og það var sko þess virði!
Bara ef allar æfingar væru svona þægilegar ;)

26. sep. 2005

Kominn með gemsanúmer!

Er loksins kominn með danskt gemsanúmer, númerið er: 60 64 17 59
Verið nú dugleg að hringja í mig og senda mér sms ;)

22. sep. 2005

Veikindi og lækningar

Já loksins þegar maður er búinn að skipuleggja ferð til Köben með smá heimsókn til Svíðþjóðar kemur einhver veikindadjöfull og slær mann beint niður í gólfið. Alltaf gaman þegar svona gerist, ég einhvern veginn veikist alltaf á verstu tímunum og þegar ég hef ekkert betra að gera en að vera veikur...þá er ég sem frískastur.
Allt þetta veikindavesen fór ekki vel í hana Hildi og sá hún jafnvel fram á það að þurfa hætta við ferðina um helgina. En hún Hildur deyr aldrei ráðalaus og hún var sko ekkert á því að þurfa sætta sig við það að hætta við ferðina. Þannig að hún ráðfærði sig við móður sína, sem fyrir þá sem þekkja hana ekki er sérfræðingur í öllum heilsu/grasa/fræ/olíu-fræðum sem gæti hugsanlega hjálpað. Hún sendi Hildi beint útí einhverja heilsubúð og þar kom hún út hlaðin alls konar heilsuvarningi handa Óskari sínum sem átti að gera hann frískan á einum degi. Einnig átti ég að halda mér alveg kyrrum fyrir, ekkert fara út, ekkert að læra, drekka mikið að vatni og ekki mikið af óhollum mat...fékk ég nokkrar hringingar yfir daginn til að staðfesta að öll þessi atriði voru í lagi.
Þannig að þegar hún kom heim þá var ég strax látinn drekka sólhatt ofan í djúsinn minn og ávextir settir í skálina fyrir framan mig. Í kvöldmatinn var elduð grænmetissúpa sem var stútfull af spínati og í eftirrétt fékk ég einhverskonar sítrónute...eða það held ég a.m.k..........með meiri sólhatti. Eftir þetta gat ég gætt mér á súkkulaðinu mínu sem hún keypti...........sem var að vitaskuld sykurlaust beint úr heilsubúðinni.
Já, þegar Hildur er búinn að skipuleggja eitthvað, þá kemur sko ekkert í veg fyrir það ;)

20. sep. 2005

Súkkulaði

Ég lýsi því hér með yfir að ég er súkkulaði fyrir öllum þessum "klukkunum" sem eru í gangi núna á netinu.
Helst dökkt súkkulaði...

19. sep. 2005

Bland í poka

Já loksins ákvað N-Kórea að gefa sig í kjarnorkuviðræðunum. Ég var búinn að gefa upp alla von um þetta mál, var farinn að horfa á það með sömu augum og Ísrael-Palestína, sömu vonleysisaugunum.
Við Hildur ætlum að skella okkur til Köben næstu helgi, stefnan hjá mér var sú að hittast á Leiknisstrákana sem verða þar einnig (einhver verður að halda í taumana á þeim hérna í Danmörku). Hildur ætlar í staðinn að hitta einhverjar vinkonur en að sjálfsögðu verður tívolíið tekið með stæl í leiðinni!
Ég fór að hugsa út í það þegar við komum hingað fyrst til Danmerkur tómhent og vitlaus. Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan og sést það mjög vel á stofunni okkar sem hefur tekið miklum breytingum á einu ári. Svona til gamans langar mig að birta fyrir/eftir mynd af stofunni.
Hérna erum við að snæða morgunmat á innflutningskössunum. Á þessum kössum borðuðum við í næstum tvær vikur held ég þar til við keyptum litla stofuborðið okkar.

Og hérna er ég ári seinna að horfa á sjónvarpið.

14. sep. 2005

Skoðun

Ég hata að missa af strætó...
Ég hata að missa af strætó...
Ég hata að missa af strætó...
Ég hata að missa af strætó...
Ég hata að missa af strætó...
Ég hata að missa af strætó...
Ég hata að missa af strætó!!!

7. sep. 2005

Nú er ruglið búið

Já og ég segi það einu sinni enn...nú er ruglið búið!
Það er búið að sýna sig og sanna, ég er ekki sumarbloggari. Eftir núna tvö sumur sem bloggari hef ég nánast ekkert bloggað í bæði skiptin, svona er þetta bara.
Einnig varð ekki mikið úr miklu hólmgöngunni í sumar, veit ekki ennþá af hverju. Kexpakkarnir voru reyndar alltaf fljótir að klárast áður en hólmgangan hófst, kannski kemur það málinu eitthvað við. En ég lofa ykkur samt að þessi hólmganga mun klárast...veit bara ekki alveg hvenær.
En þá er komið að smá sögu frá Danmörku, ein sem endurspeglar enn og aftur hversu skrýtið fólk býr hérna. Ég var s.s. að horfa á sjónvarpið um daginn á dönsku útgáfuna af Viltu vinna milljón. Þetta var sérstakur þáttur sem hafði undirtitilinn Mig og min eks eða Ég og mín/minn fyrrverandi. Þessi umtalaði þáttur var einmitt þannig að fyrrverandi hjón kepptu saman í stólnum að svara spurningunum.
Eins og alltaf byrjar stjórnandinn á smá kynningu og spjalli við keppendur, það hljómaði einhvernveginn svona:
Stjórnandi lítur í myndavélinna: Já í stólnum hjá mér sitja Jorgen frá Horsens og Anna frá Aarhus, Jorgen er blablabla og Anna vinnur við blablabla.
Stjórnandi lítur á keppendur: Verið velkomin í stólinn, segið mér, hvenær skilduð þið?
Og eins og ekkert sé eðlilegra svöruðu hjónin.
Hjónin: Já við skildum ´96, er það ekki? (lítur á hinn aðilann), jú ´96 var það.
Svo fóru í gang einhverjar samræður um hvað gekk ekki upp og af hverju þau skildu og hvernig þau höfðu það í dag. Ég vek athygli að öllum fannst þetta fullkomlega eðlilegt.
Svo þegar þau eru komin upp í einhverjar þúsundir spyr stjórnandinn hvað þau ætla að gera við peningana.
Konan: Já af því að börnin okkar búa hjá mér þá fara peningarnir beint í þau og heimilið.
Karlinn: Já ég ætla að kaupa mér Jagúar...(kannski þess vegna að þau skildu?).
Eftir þetta þá gafst ég upp að horfa á þetta og skipti um stöð, þetta var bara of mikið fyrir mig. En svo datt okkur í hug hvernig þau ætla að skipta peningunum og sé ég aðeins hörkurifrildi fyrir mér í þeim málum:
Af hverju ætti þú að fá jafn mikið og ég, ég svaraði fleiri spurningum en þú?
Það er ekki satt, ég vissi líka svarið, ég leyfði þér bara að svara!
En ég kom okkur í stólinn með því að vera fyrstur að raða í stafrófstöð, ég ætti að fá meira fyrir það!
En ég skráði okkur í þáttinn til að byrja með, það er ég sem á að fá meira en þú!
Já ekki vildi ég koma á milli þeirra þarna. Vona að þetta hafi verið skemmtilega saga og að hún hafi varpað einhverju ljósi á lífið hérna úti. Nú er kominn nýr tími á þessari síðu, nú er ég kominn aftur.

26. jún. 2005

Hólmgangan nálgast

Kæru lesendur, það er búið að skora mig á hólm, í hverju? Jú engu öðru en kexáti!
Hildur segist vera handviss um að hún geti sigrað mig í kexáti sama hversu mikið ég vara hana við, ég held að þetta sé spurning um stolt hjá stelpunni. Þar sem ég er sannur kexáhugamaður og var farinn að stúta heilum homeblest pökkunum fyrir 5 ára aldur þá held ég að þessi keppni fari aðeins í einn farveg.
Reglurnar eru eftirfarandi:
1. Hver fær einn homeblest pakka og einn toffepops pakka.
2. Eitt mjólkurglas eða svali eru leyfileg hjálpartæki, engin önnur.
3. Sá sem klárar fleiri kex á 1 min 40 sek vinnur.
4. Bannað er að troða kexum upp í sig rétt áður en tíminn rennur út. Aðeins má byrja á nýju kexi þegar hið fyrra er horfið ofan í maga.
Þetta stefnir í stórspennandi keppni, tekið er við veðmálum síma 695-1357, ekki missa af þessu einstaka tækifæri!
Úrslit hólmgöngunnar verða tilkynnt hér á þessari síðu innan skamms.

17. jún. 2005

Öll vötn renna til Íslands

Já þá er maður loksins á heimleið eftir fyrsta hlutann í ævintýrinu hérna í Danmörku. Þetta eru búnir að vera ótrúlegir 10 mánuðir hérna úti alveg frá því að við Hildur vorum ráfandi í miðbænum allan daginn leitandi okkur að íbúð (og gátum ekki talað orð í dönsku) frá því að þessu lauk í 3 mánaða próflestri sem loksin kláraðist í síðustu viku.
Já þetta eru búnir að vera ótrúlegir tímar, oft verið erfiðir en það hefur aðeins gert mann sterkari og reyndari. En nú bíður Ísland eftir mér og ég get ekki beðið að koma heim og sjá alla aftur, byrja vinna, æfa og njóta þess að tala íslensku allan daginn :)
Ég kem heim eftir miðnætti á laugardaginn og það fyrsta á dagskránni á sunnudaginn verður að kíkja á Leiknir-KR uppá Leiknisvelli í bikarnum.
Þetta þýðir einnig að einbúalífinu sé að ljúka......Guð sé lof fyrir það. Helvíti var Hildur sniðug að fara svona á undan mér, nú þarf ég að þrífa og ganga frá íbúðinni fyrir sumarið....já hún leynir á sér stelpan.
En þá segi ég bara bless í bili og hlakka til að sjá alla á Íslandi :)
Danmörk over and out!

11. jún. 2005

Blogg í læripásu

Ég sá soldið skondna frétt núna rétt áðan í fréttunum. Það var verið að sýna svipmyndir frá einhverju árlegu traktoramóti hér í Damörku. Það voru saman komnir helstu bændur landsins á risatraktorum (svona þrisvar sinnum stærri en svona venjulegir litlir traktorar) og þar var síðan keppt ýmsu eins og hver væri sneggstur að draga einhverja svaka vinnuvél ákveðna vegalengd.
Svo voru sýndir verðlaunahafarnir og þar stóð uppúr öllum grófu bóndaköllunum með tópak í vörunni og vöðvastæltu bóndasonunum lítil tvítug stelpa í jogging galla með gullið.
Ha ha já þetta fannst mér fyndið.
Einnig sá ég í fréttunum að það er hægt hér í Danmörku að læra að vera "dýra-aðstoðarmaður"
...................eða með öðrum orðum afgreiðslumaður í dýrabúð.
Það fannst mér líka fyndið.
Mér finnst margt fyndið þessa daganna.
Hummmm...fyndið

9. jún. 2005

Þetta er nú meira ævintýrið

Já þá er eitt próf eftir og ég er að missa vitið. Það er að fylla upp í þriðja mánuðinn í próflestri dauðans og það er sko ekki vottur af bensíni eftir.
Ég er búinn með stóra anatomiu-prófið og það gekk bara miklu betur en ég bjóst við, er bara nokkuð bjartsýnn að ná. En þá er vefjafræðin eftir og þar eru málin ekki nógu góð hjá mér.
Er að frumlega rúmlega helminginn af 700 blaðsíðna bók og svo endar þetta í munnlegu prófi! Já þetta er nú meira ævintýrið...
Hildur fór heim í fyrradag og síðan þá hefur tekið við einbúalíf, ég og vefjafræðibókin mín fram eftir kvöldum. Einnig hafa núðlusúpur, grillaðar samlokur og kex orðnir mjög góðir vinir mínir.
Ég hlakka bara til að komast heim og slappa af og hlaða batteríin.

14. maí 2005

Auglýsingar og veruleikinn

Ég er búinn að sjá nokkuð oft uppá síðkastið auglýsingu með David Beckham þar sem hann er að auglýsa einhverja glænýja Mach rakvél. Ég fór að spá í því af hverju í andskotanum þeir völdu mann með nánast enga skeggrót til að auglýsa rakvélina sína. Ég er ekkert meira sannfærður um að rakvélin sé góð þótt að hann fái góðan rakstur úr henni, hann er með skeggrót eins og smástrákur...og rödd eins og smástrákur ef út í það er farið.
Látið Tom Selleck raka af sér mottuna með rakvélinni og þá trúi ég að hún sé góð!

3. maí 2005

Hugleiðing

Pýramídi er með fjórum hliðum er það ekki?
Hvað kallar maður þá "pýramída" með þremur hliðum?

2. maí 2005

Tilveran mín

Ég er í læknisfræði, þess vegna er ég...

24. apr. 2005

Stjörnuhrap!

Já það nýjasta nýtt í innbúinu okkar hérna í Danmörku er ekkert annað en Sing Star Party! Nú hristum við Hildur reglulega loftið hjá Claus nágranna á neðri hæðinni með hreint út sagt ótrúlegum töktum, við tökum við miðapöntunum frá og með næsta mánudegi.
Einnig skelltum við okkur í alvöru circus um helgina og ekki var hann af verri kantinum. Circus Arena er nemlig Nordens storste circus. Alveg var það frábær upplifun, trúðar, fílar, hestar, fimleikar og allt sem circus getur boðið uppá.
Annars er þessi Sing Star leikur eitthvað að fara í mig, ég er einfaldlega svo ótrúlega lélegur að Hildur vinnur mig alltaf! Eða ég ætti að segja nánast alltaf því að það undur og stórmerki gerðist áðan í ótrúlega harðri keppni á milli okkar.......................ég vann!
Ég á eftir að lifa á þessu út næsta mánuð, því að ekki á þetta eftir að gerast aftur í bráð.

21. apr. 2005

Hugleiðing

Stelpur á háhæluðum skóm á bókasöfnum eru verkfæri djöfulsins...

19. apr. 2005

Er ég á leiðinni að lesa yfir mig?

Það er eitthvað skrýtið á seyði þegar:

...maður er inni á heitu og loftlausu bókasafni alla daga á meðan það er sól og gott veður úti.
...manni er byrjað að dreyma námsefnið reglulega.

...þad er komid far aftan á flíspeysuna eftir skólatöskuna.

...maður er farinn ad hlakka til helgarinnar ekki af því ad þá er maður ad fara skemmta sér og slappa af heldur af þvi að þá fær maður svo góðan tíma til að læra.

...maður veit ekki lengur hvaða vikudagur er þvi að allir dagar eru eins.

...það eru að byrja myndast göt i skeggrótinni.
...maður er með hausverk annan hvern dag.
...manni er byrjað að finnast notalegt í strætó af því að þá getur maður slappað aðeins af.
...þegar maður er byrjaður að slappa af í strætó!
Mig grunar að ég sé á leiðinni að lesa yfir mig.

14. apr. 2005

Hugarfar heilsunnar

Á taekwondo æfingu fyrir svona einu og hálfu ári síðan (þegar ég var ekki með bumbu) þá meiddist einn gaur í hnénu. Hann hafði verið í einhverju basli með hnéð ef mig minnir rétt og það gerist eitthvað í miðju sparki þannig eitthvað brestur og hann dettur. Hann getur ekki staðið upp og nauðsynlegt er að hringja á sjúkrabíl.
Eftir góðan tíma rennur sjúkrabíllinn í hlað og tveir hressir kallar koma inn í æfingasalinn með börur og byrja að athuga hnéð. Aumingja gaurinn var búinn að vera sárþjáður í góðan tíma og spyr sjúkraliðana eftir smástund hvernig útlitið sé fyrir hnéð á sér.
"Hvernig lítur þetta út? Get ég haldið áfram að æfa?"
Þá svara sjúkraliðinn: "Nei, því miður, þú munt aldrei geta æft aftur"
"Neiiiiiii ohhhhhh í alvöru" Kallaði greyið maðurinn.
Skiljanlega alveg þvílíkt svekktur að meiða sig svona á fyrstu æfingunni sinni eftir meiðslin sín.
Eftir ca 5 sekúndur segir sami sjúkraliðinn:
"Neiiiiiiiiiii ég er bara að djóka í þér, þetta verður allt í lagi eftir 2 mánuði!"

10. apr. 2005

Hugleiðing

Í sumar ætla ég að fá geðveikt stóran musculus sternocleidomastoideus...

7. apr. 2005

Demba ársins

Ég sem hélt að vorið var að koma hérna í Danmörku. Síðasta vika er búin að vera frábær, soldið svalt loftið en sólin er aldeilis búin að vera dugleg að hita okkur jarðlingana upp.
En hvað gerist svo í morgun? Það kemur þessi hellidemba sem er gjörsamlega dynur á þakinu mínu. Ég hélt á tímabili að sprungur væru að myndast í þakgluggunum, svo "föst" var rigningin.
Þetta hlýtur að vera vetur konungur að kveðja og eftir þetta þá kemur vorið í allri sinni dýrð. Það er jú ávallt mesta myrkrið rétt áður en það birtir til. Vorið er að koma, ég veit það. Það mun koma eftir helgina.
Ég vona að ég nái að sannfæra veðurguðina eins og ég er búinn að sannfæra sjálfan mig.

5. apr. 2005

Áhugaverð lesning

Í gær var ég í u.þ.b. 2 og hálfan tíma að lesa um endarþarminn, endarþarmsopið og allt þar í kring. Með þessari skemmtilegu lesningu starði ég á margvíslegar myndir í atlasnum mínum og reyndi að leggja allt á minnið.
Þar kom margt skemmtilegt í ljós sem ég ekki vissi, þar á meðal er að það er ekki alveg svo einfalt ferli að kúka en ég hélt. Þetta er bara eitthvað sem ég hef aldrei spáð í, mjög áhugavert.
Þau skipti sem ég hef verið á klósettinu síðan þá hef ég aldeilis verið að spá í því hvað sé nákvæmlega að gerast. En ég vona samt að þetta líði hjá fljótt, þegar ég hugsa út í þetta aðeins betur þá var bara fínt að vera algjörlega clueless um þetta ferli.
Eitt að lokum á meðan ég er í þessum hugleiðingum. Nú er ekki lengur hægt að tefla við páfann, hvað gerir maður þá? Þarf maður að bíða í tvær vikur?

3. apr. 2005

Dönsk vitleysa

Ég er nýbúinn að fá mér danskan heimabanka og í fyrradag ætlaði ég að nota hann til að borga húsaleiguna. Ekki reyndist það vera hægt því að reikningurinn minn kom hreinlega ekki upp á millifærslusíðunni. Þetta er greinilega bara eitthvað smá tölvuvandamál sem bankinn verður að laga þannig að ég sendi þeim email og útskýrði hvað var að hjá mér. Tveimur dögum seinna fékk ég svar frá þeim:
Da du ikke kan hæve på din konto i Netbank, skal du kontakte bankafdeling.
Med venlig hilsen
Grethe Hansen
Danske Bank
Kundeservice.
Lausleg þýðing: Ef þú getur ekki tekið út af reikninginum þínum í netbankanum, skaltu hafa samband við bankadeildina.
Var það ekki nákvæmlega það sem ég var að gera?
Hálvitar...

28. mar. 2005

Málshátturinn þetta árið

"Þann er gott að fræða sem sjálfur vill læra"
Þessi málsháttur kom mér skemmtilega á óvart þar sem ég var búinn að læra allan daginn og var alveg búinn á því. Hann kom á hárréttum tíma og virkaði sem góð hvatning. Spurning um hvort þetta hafi bara verið ótrúleg tilviljun eða hvort mamma hafi valið málsháttin sérstaklega áður en hún sendi mér páskaeggið?

25. mar. 2005

Íslendingafárið

Mér finnst allt þetta umstang kringum Fischer gjörsamlega komið úr böndunum. Það er hið besta mál að hann sé nú kominn til Íslands og svo framvegis en menn eru alveg að missa sig.
Í fyrsta lagi vil ég að menn hætti að kalla Sæma rokk "einkavin" eða "góðvin" og jafnvel "besta vin" Fischers. Mennirnir eru ekki búnir að hittast í 33 ár og Sæmi var nú bara bílstjórinn hans og fylgdarmaður í nokkrar vikur, ég trúi varla á þessum tíma að svona gífurlega sterk vinátta hafi myndast á milli þeirra að þeir séu búnir að hugsa til hvers annars í öll þessi ár. En ég veit svo sem ekkert um þetta þannig að ég ætla ekkert að vera staðhæfa neitt.
Eftir að hafa horft á beina útsendinguna á bæði Stöð 1 og 2 á netinu þá hlýt ég að hafa hrist hausinn svona 50 sinnum. Alls konar vitleysingar með skilti og hvaðeina veifandi í loftið og kallandi nafnið hans eins og algerir hálvitar fóru gjörsamlega með mig. Einnig krakkarnir á sjoppufylleríinu sínu, fólk var hreinlega að missa sig, ég sver að við líkjumst BNA meira og meira með hverjum deginum því að aðeins þar gæti ég ímyndað mér svo mikla dramatík útaf litlu.
Útsendingin hjá Stöð 2 var gjörsamlega ömurleg, fréttaflutningurinn var mjög slappur, kynnirinn var stressaður og vissi greinilega ekkert hvernig hann ætti standa eða haga sér, engin dagskrá var tilbúin sem var til þess að stressaðir fréttamenn fóru að spinna þráðinn á staðnum sem kom ef satt skal segja mjög illa út. Við byrjuðum fljótt að fá beint í æð gjörsamlega tilgangslausar upplýsingar um hvernig þotan er sem flogið var í og hversu hvasst væri úti og svo framvegis, ég held að ég hafi misst áhugann eftir 5 mínútur.
Stöð 1 var hins vegar með mun betri útsendingu, þar var búið að stilla upp viðtölum við hina ýmsu menn á meðan beðið var eftir að flugvélin myndi lenda. Fréttaflutningurinn var rólegur og yfirvegaður og var laus við alla hasafréttamennsku sem Stöð 2 einkenndist af.
Þessi samanburður staðfesti það að mínu áliti að Stöð 2 er sífellt meira að líkjast bandarískri hasafréttastöð og þessar útsendingar veittu góða innsýn á muninn á þessum tveimur stöðvum. Fyrir ykkur sem vilja bera þetta saman sjálf er hægt að skoða útsendingarnar frá 24. mars á www.ruv.is og www.visir.is.
Mér fannst einnig mjög skrýtið að heyra síðan að Stöð 2 hafi verið að stjórna allri þessari heimkomu, hef ég lesið að jafnvel lögreglan hafi verið að taka skipunum frá þeim og Páll Magnússon fréttastjóri væri bara kóngurinn. Lyktar þetta mjög mikið að Baugsmönnum því að þeir redduðu jú líka einkaþotunni. Þeir sáu einnig til þess að engir aðrir fréttamenn komust að Fischer sem þeir höfðu alveg geta sleppt því að viðtalið sem þeir náðu var alveg tilgangslaust. Þetta finnst mér hreinlega vera algjört bull og ég er nú gjörsamlega búinn að missa allt álit mitt á Stöð 2 sem góðri fréttastöð sem ég get treyst.
Annars bíð ég bara Fischer velkominn og vona að Íslendingar hafi nógu mikið vit að láta hann bara í friði en ekki reyna að breyta þessu í eitthvern dramatískan fjölmiðlasirkus.

23. mar. 2005

Tannálfur að vori

Allt frá blautu barnsbeini hef ég hlustað á móður mína þegar kemur að almennri tannhirðu. Ávallt var ég duglegur að bursta í mér tennurnar og jafnvel nota tannþráð og því hef ég aldrei séð eftir.
Aldrei hélt ég að hugsa vel um tennurnar í sér gæti haft með sér slæmar afleiðingar en í gær kom sko annað í ljós. Fyrir svefnin var ég að nota tannþráð eftir að hafa burstað í mér tennurnar eins og hver önnur kvöld og allt gekk eins og í sögu. Gekk ég um í rólegheitunum í stofunni meðan ég var að klára tannþræðsluhringinn minn. Svo kemur það fyrir að tannþráðurinn rifnar á milli tveggja jaxla og skilur stóran hnulla eftir á milli tannanna þannig að ég fann fyrir þó nokkrum þrýstingi. Bölva ég fljótt lélegum tannþræði og fer inn á klósett að sækja nýjan tannþráð til að þá þessum hnykli út því að þetta hefur oft gerst áður en aldrei fyrr verið neitt vandamál. Ég vef nýja þræðinum glæsiega um fingur mér og geri mig reiðubúinn að fjarlægja helvítið. En örlögin voru sko ekki mér hliðholl í þetta skiptið því að við fyrstu tilraun rifnað nýji þráðurinn minn einnig! Svona 20 mínútum og örugglega 5 metrum af tannþræði seinna sit ég örmagna á klósettsetunni bölvandi helvítis tannþræðinum sem var fastur á milli tannanna minna, hann vildi hreinlega ekki út!
Og eftir að hafa notað allt sem mér datt í hug í íbúðinni til að ná þessu út þá gafst ég upp og fór að sofa. Þetta leið næstum eins og að hafa tvær flísar af poppkornmaís á milli tannanna og það var verulega óþægilegt og þetta var gjörsamlega að gera mig brjálaðan.
Klukkan 7:30 daginn eftir var rokið beint út í búð og til að kaupa dýrastu og flottastu tannstönglana sem fundust í von um að bjarga mér frá því að missa vitið. Spenntur opnaði ég pakkan fullur af von. Og þarna stóð ég fyrir framan spegilinn alveg gjörsamlega að hamast á kjaftinum á mér en ekkert gerðist! Þvílíkt fúll hélt ég svo í skólann ennþá með helvítist þráðinn á milli jaxlanna.
Svo um kvöldið fyrir svefnin var ég aftur að nota tannþráð og var eitthvað að horfa á sjónvarpið og labbandi um. Þá bara allt í einu rennur tannþráðurinn á milli jaxlanna og fjarlægir helvítið! Ég get svarið að það tók mig svona 10 sekúndur að átta mig á því hvað hafði gerst, mér leið eins og ég hefði unnið milljónir í lottó, ég upplifði einhverskonar nirvana, ég var svo ánægður, ég var á hátindi tilverunnar!
Svo eftir smá stund fór ég að sofa og var alveg sama um þennan helvítis tannþráð.
Ég veit ekki alveg hversu spennandi þetta blogg þetta var, kannski segir þetta allt sem segja þarf hversu spennandi líf mitt er um þessar mundir. Ég skal reyna gera betur, bið að heilsa í bili.

15. mar. 2005

Blogg varð það

Þegar fólk er byrjað að kvarta yfir bloggleysi þá er það merki um það að maður sé ekki að standa sig.
Síðustu vikur hjá mér eru búnar að innihalda nákvæmlega ekki neitt frásögufærandi og annir í skólanum hafa haldið mér frá einhverjum frásöguverðum pælingum. Ég er ansi hræddur um það að þessari önn þá á ég eftir að lesa yfir mig. Ég mun fara yfir strik heilbrigðar skynsemi og óvíst er hvenær ég mun komast aftur í raunveruleikan.
Þess vegna vil ég biðja fólk um þolinmæði og skilning þegar ég sný aftur heim í sumar því að þá verð ég mjög orðinn skemmdur. Einnig bið ég ykkur um að hjálpa mér að komast í eðlilegt horf og niður á jörðina.
Mikið verður það gott þegar þessi önn er búin.

1. mar. 2005

Strætóglópar

Það má varla falla snjókorn hér í útlöndum og þá fer allt til fjandans. Hér kann sko enginn að keyra í umferðinni, hvorki fólksbílar né strætóbílstjórar. Gröfu- og skafningakallarnir kunna ekki einu sinni að skafa almennilega.
Í dag kom svona léttur púðursnjór yfir Aarhus, ca 2 cm mundi ég segja, eitthvað sem við klakafólk myndum nú bara kalla hitabylgju á vetrartímanum. En ekki hér í Aarhus, neiiiiiiiiiiiiiii. Á leiðinni heim úr skólanum í strætó var okkur tilkynnt að það yrði ekki keyrt heim til mín. Annað hvort af því að það var ófært eða af því að bíll keyrði útaf eða eitthvað og hindraði alla umferð.
Þá fór 90% af fólkinu í strætóinum út á næstu stoppustöð og saman löbbuðum við í hóp að annarri stoppustöð til að athuga hvenær hinir strætóarnir koma sem keyra til Trige (þar sem ég á heima). Þetta fannst mér soldið fyndið af því að þarna var ég búinn að eignast ca 10 strandaglópa vini í stutta stund. Saman athuguðum við hversu lengi við þurftum að bíða í kuldanum og saman spjölluðum við um hvert hver væri að fara og hvernig þetta mundi ganga. Við vorum ein heild með eitt markmið í huga...að komast heim.
Og um leið og hinn strætóinn stoppaði og fólkið gekk inn hurfu þessi vináttubönd eins fljótt og þau höfðu myndast.

4. feb. 2005

Hitt og þetta

Ég gjörsamlega þoli ekki þegar kennarar nota svona rauðan laser punkt í kennslu. Ég meina hvernig í ósköpunum á maður að geta fylgt öldruðum, skjálfhentum próffessor eftir þegar punkturinn er á ferð og flugi út um allt. Svo veit ég um einn hér á fyrsta ári sem er litblindur og sér ekki einu sinni punktinn og hefur þar af leiðandi ekki hugmynd um á hvað kennarinn er að benda á.
Það hafa allir spilað Trivial pursuit er það ekki? Í fjólubláu útgáfunni, sem ég held að sé sú nýjasta, eru oft soldið skuggaleg svör við spurningunum finnst mér. Man einhver eftir að hafa fengið spurninguna:
Hvort er réttara að segja, að taka réttan pól í hæðina eða rétta hæð í pólinn?
Samkvæmt spilinu er rétt að segja seinni möguleikann en í öllum þeim tilfellum sem ég hef verið að spila þá hafa allir viðstaddir verið ósammála þessu. Ég fletti þessu upp á vísindavef HÍ og þar fann ég einmitt svar við þessari spurningu, hér er brot úr tekstanum úr þessu svari:
En sé mögulegt að taka skakkan pól í hæðina hlýtur líka mega taka réttan pól í hæðina og því rétt að segja ‘að taka réttan pól í hæðina’ en ekki ‘að taka rétta hæð í pólinn’.
Samkvæmt þessu er svarið rangt hjá spilinu eins og allir voru sammála um. Þetta er ekki fyrsta skipti sem ég hef rekist á undarlegt svar úr þessu spili. Þetta finnst mér ekki gott mál þar sem höfundar spilsins bera mikla ábyrgð að hafa öll svör eins réttust og hægt er. Þannig að munið það í framtíðinni þegar spilar er þessi útgáfa af trivial að ekki taka öll svör of alvarlega og ef þau hljóma undarlega þá athuga það sjálf.

3. feb. 2005

Myndasíða

Kæru vinir, ég vill vekja athygli að ég er loksins búinn að setja nokkrar myndir á netið. Vonandi nær maður að setja fleiri myndir inn í framtíðinni.

En ég það kom mér pínú á óvart að ég er núna strax búinn að nota 39% af þessum ókeypis heimasvæði sem ég skráði mig inn á, ekki er það nú mikið sem maður fær.

Jæja ekkert væl Óskar og haltu áfram að læra!

28. jan. 2005

Íslendingur í Danmörku að dansa norskan swing dans

Já mikið rétt, annar danstíminn er búinn og ég stend mig ótrúlega vel þótt ég segi sjálfur frá. Þegar við Hildur komum heim næsta sumar þá eigum við sko eftir að sýna hvað í okkur býr á dansgólfinu á Þjóðleikhúskjallaranum.

En ég sé að ég þarf að fara í þjálfun í að heyra taktinn í lögunum sem við erum að dansa við. Eins og t.d. lagið sem við vorum að dansa við síðast þá heyrði ég bæði trommutakt og bassatakt og svo blandaðist allt hitt inn í og ég var alveg orðinn ruglaður. Ég vissi ekki eftir hvaða hljóðfæri ég átti að hlusta eftir. Ef ég hlustaði eftir trommunum þá truflaðist alltaf danstakturinn minn þegar það kom reglulega svona aukatrommutaktur.

Svo sátum við tvö í svona 15 mínútur áður en tíminn byrjaði þar sem Hildur klappaði yfir mér og taldi einn, tveir, þrír, fjórir í tilraun að fá mig til að skynja taktinn. En það ruglaði mig alltaf þegar það kom þessi aukatrommutakur ofan í þetta allt saman, hún sagði bara að ég væri of flókinn og væri að hlusta of nákvæmt á lagið.......kannski er það rétt hjá henni.

En hvað sem það er þá er ég kominn formlega í taktþjálfun........wish me luck!

18. jan. 2005

Búinn að lesa yfir mig strax?

Það er hægt að mennta sig í nánast öllu sem er hérna í Danmörku og mér finnst oft fyndið hversu fjölbreytt úrvalið er. Ég sá um daginn auglýsingu í blaði þar sem verið var að fjalla um nýja námsbraut í Aarhus Tekniske Skole. Þessi námsbraut innihélt tveggja ára nám fyrir ferskvöruaðstoðarmenn í matvörubúðum. Og það var ekkert verið að grínast í þessum málum.

Síðan þetta ár byrjaði hef ég ekki gert mikið annað en að lesa erfðafræði. Þessi kúrs endar síðan í prófi á laugardaginn. Eitthvað held ég að ég sé búinn að hugsa aðeins of mikið um þessa hluti síðustu daga ef eitthvað má marka síðustu nótt að minnsta kosti. Hildur vaknaði við mig um miðja nóttina þar sem ég er að halda einhverja stórmerkilega ræðu um litninga og DNA basa. Af forvitnissökum spyr hún mig hvað ég sé að tala um og ég svara henni að sé eins og ekkert annað sé eðlilegra og segist vera tengja litninga saman og teikna með puttanum í loftið hvernig ég fer að því. Að svo loknu sný ég mér á hina hliðina og held áfram að sofa eins og ekkert hafi í skorist. Ég get rétt ímyndað mér hversu mikið hún hafði hlegið að mér.

Ég hef nú séð menn sem hafa lesið yfir sig og það er ekki fögur sjón. Ég vil ekki enda svoleiðis. Í guðanna bænum látið mig vita strax ef þig sjáið einhver fleiri merki um að ég sé að fara yfir strik heilbrigðar skynsemi.

Ég held að ég taki mér góða pásu í næstu viku eftir prófið.

13. jan. 2005

Sviti og tár

Jæja, þá er kennari búinn að taka mig tvisvar upp á töflu fyrir framan alla og látinn svara alls konar spurningum og gera eitthvað dæmi. Ég gjörsamlega þoli þetta ekki!

Fyrra skiptið var ég bókstaflega hakkaður niður af leiðinlegri kellingu fyrir framan 50 manns. Þá átti ég að koma upp og tala um ótrúlega óskýra rafeindasmásjármynd og gjörsamlega útskýra allt sem ég sá. Þegar þetta gerist þá var ég rétt búinn að vera hérna í mánuð og skildi ekkert hvað var að gerast í tímunum. Ég skildi minna en 10% af því sem hún var að segja við mig og ennþá minna í myndinni. Það var hérna sem ég upplifði ótrúlega óþægilegt augnablik og geðveikt óþægilega þögn, hún s.s. spurði mig einhverjar spurningar sem ég skildi ekkert í og svo þagnaði hún og beið eftir svari. Ég vissi nákvæmlega ekki neitt hvað ég gat sagt þannig að ég brosti bara. Þannig brosti ég í örugglega 10 sekúndur og á meðan mátti heyra nál detta í kennslustofunni því að allir voru að bíða eftir mér að segja eitthvað. Auðvitað kom ekkert upp hjá mér og hún gafst að lokum upp á mér og tók prikið af mér og útskýrði restina (sem var nánast allt) sem var eftir og ég mátti setjast niður. Ég held að ég hafði misst svona heilan lítra af vatni í gegnum svita á þessari reynslu.

Næsta skipti gerðist sem betur fer ekki fyrr en í fyrradag og það reddaðist á endanum. Átti að reikna og útskýra eitthvað dæmi sem ég átti að vera búinn að gera en var ekki einu sinni búinn að líta það yfir. Svo talar þessi kennari svo þvoglumælt að ég á ótrúlega erfitt með að skilja hann. Hann þurfti s.s. að hjálpa mér í gegnum allt dæmið fyrir framan bekkinn minn. Þegar dæmið var hálfnað tek ég eftir því að ég er að snúa krít í lófanum mínum örugglega svona 100 hringi á sekúndu og segir það nóg um það hversu stressaður ég var. Svitatap var aðeins hálfur lítri sem er mjög mikil framför síðan síðast.

En hvað haldið þið að ég sé að fara gera bráðlega? Ég er að fara á kynningarnámskeið í swing DANSI! Já það er alveg dagsatt. Ég sé mig alveg fyrir mér sem John Travolta á dansgólfinu að gera áhorfendur alveg brjálaða. Ég hef nefnilega svo andskoti góðan takt og mússikalskan rythma að það er synd að rækta ekki þessa hæfileika .

(Mússík)
Ahhh Ahhh Ahhh Ahhhh staying alive.............staying alive.........

10. jan. 2005

Nu snakke jeg dansk!

Í dag sagði ég brandara á dönsku í skólanum......í dag lærði ég dönsku.

6. jan. 2005

Fyrsta blogg ársins

Gleðilegt nýtt ár öll sömul og takk fyrir það liðna. Það var frábært að komast heim og nú er ég sko aldeilis búinn að hlaða batteríin og það er eins gott því að mig mun ekki veita að því þessa önn. Mér þykir það leitt að ég náði ekki að hitta alla en ég lofa að bæta upp fyrir það næst þegar ég kem á klakann.

Það var nokkuð góð tilfinning að koma heim í Aarhus aftur, mun betri en ég bjóst við. Ég hefði viljað nokkra daga í viðbót heima. Skemmtileg tilbreyting líka að mæta á fyrsta skóladegi og geta skilið nánast allt sem fór þar fram. Ég gat ekki annað en hugsað hvernig þetta var í haust þegar ég skildi ekki orð og kom heim með dúndrandi hausverk eftir hvern einasta dag, gjörsamlega búinn. Skrýtið hvernig hlutirnir gerast stundum.

Svo var ég á vappi í bænum að fara versla fleiri skólabækur þegar tvær litlar danskar stelpur stoppuðu mig og spurðu mig til vegar. Oftast í þessum tilfellum hefur bara sagst ekki vita neitt of haldið áfram leið sína en ekki í þetta skiptið. Ég nefnilega skildi hvert einasta orð sem þær sögðu og ekki nóg með það þá gat ég sagt þeim í hvaða átt þær áttu að fara. Þetta fannst mér ótrúlegt og ég sveif eins og fiðrildi allan daginn af ánægju og stolti því að þennan dag talaði ég dönsku! Þegar ég kom heim nokkrum tímum síðar hringdi einhvar kall (greinilega með vitlaust númer) og ég skildi ekki bofs af því sem hann sagði og þar með lauk því tímabili sem ég talaði dönsku.

Nú er komið í umræðuna hér í Danörku að breyta einkunnarkvarðanum. Núverandi kvarði er alveg fáránlegur (0-3-5-6-7-8-9-10-11-13) og á að breyta honum í kvarða sem samræmist betur við erlendar hefðir (-3,0,2,4,7,10,12). Aðal ástæðan fyrir þessari breytingu er erfiðleikar að samræma danskar einkunnagjafið við erlenda skóla sem veldur mörgum nemendum miklur vandræðum, bæði dönskum nemendum sem fara út að læra og erlenda nemendur sem koma til Danmerkur. Einnig er í mörgum tilfellum ómögulegt að fá 13 og þar að auki hafa myndast mismunandi hefðir innan ýmissa deilda hvernig einkunnagjafir eru. Hinn nýji skali er hannaður þannig að hann passar við evrópska kvarðann ECTS (European Credit Transfer System) því að nýji kvarðinn hefur jafn marga stafi og sá evrópski.

Nýji skalinn: 12, 10, 7, 4, 2, 0, -3


ECTS: A, B, C, D, E, Fx, F

13-Skalinn(sá gamli): 13, 11, 10, 8, 9, 7, 6, 3, 5, 0

Þýðingar(á ECTS og nýja): Framúrskarandi, Ágætt, Gott, Sæmilegt, Nægilegt, Ónægilegt(fall), Algjörlega ónægilegt(fall)

Eins og ég sagði eru miklar umræður um þetta en það sem mér finnst skrýtið og hálffyndið er að það dettur engum í hug að breyta í 1-10 skala eins og er á Íslandi. Það er langrökréttasti kvarðinn! Ef þú færð 7 á prófi þá veit sá sem að skoða einkunnina þína að þú stóðst 70% af prófinu, hversu einfaldara getur það verið? Í staðinn er maður að dröslast með eitthvað ágætt og gott út um allt. Og hvernig er eiginlega gefið fyrir á hinum kvörðunum, hafið þið spáð í því? Ég las eitthvað um að ECTF kvarðinn er þannig að hæstu ca 10% fá A og miðju ca 30% fá C. Ég man ekki alveg hvernig þetta var en ég sá ekkert vit í þessu. Endilega fræðið mig um þetta ef þið vitið eitthvað meira.

Jæja orðið gott í bili, sjáumst öll hress og kát næst.