24. des. 2004

Gleðileg jól!

Gleðileg jól öll sömul, ég vona að þið hafið það öll rosalega gott um jólin. Verum góð við hvort annað og elskum fólk eins og það er.

21. des. 2004

Kominn heim í slabbið

Já þá er maður kominn heim á klakann aftur. Eftir næstum því 11 tíma ferðalag þá geng ég inn í mitt kæra heimili og sé að það er ekkert búið að breytast.

En það var sko ekki slegið slöku við heldur var strax drifið sig á æfingu! Var ég ekki alveg viss um hvernig sú útkoma myndi koma því að sjaldan hef ég verið í svona lélegu formi. Æfingin byrjaði á upphitun í bandí og eina ástæðan að ég náði að lifa það af var sú að ég fór tvisvar sinnum í mark til að hvíla mig. Eftir æfingu leit ég niður á tærnar mínar og þar var allt útatað í blóði! Það er nú ekki hægt að segja að maður leggji sig ekki fram í bandí. Já nöglin á stóru tánni hafði brotnað og blætt þar undan heillengi, tvö ný myndarleg sár á hinum tánum, gömlu blöðrurnar mínar allar tættar í burtu og samkvæmt athugun í morgun eru tvær nýjar blöðrur á leiðinni.

Já, það er gott að vera kominn heim!

19. des. 2004

Heimferð

Jæja, þá er allt tilbúið í heimferðina. Nú er búið að gera alla íbúðina hreina og öll óhrein föt eru nú tandurhrein. Á morgun eldsnemma klukkan 6 hefst ferðin okkar í strætó niður á lestarstöð og næstum 10 tímum seinna lendum við á íslenskri fósturjörð.

Ég hlakka til að sjá alla að nýju um jólin.

Ferðakveðjur,

Óskar.

16. des. 2004

Eru freistingar til þess að standast þær?

Okey.
Hildur er búin að kaupa jólagjöfina mína, hún er búin að segja mér hvar hún er og hún er búin að segja mér að ég megi ekki kíkja.

Nú í þessum skrifuðum orðum þá stari ég á ferðatöskuna mína sem liggur hinum megin í stofunni og ég veit að þar fyrir innan liggur jólagjöfin mín, þolinmóð bíðandi eftir að ég komi til hennar. Ég veit að hún vill að ég komi til sín, ég veit að hún vill að ég hristi sig, ég veit að hún vill að ég komi við sig, ég finn hvernig hún starir á mig í gegnum töskuna, ég veit...

Ég meina, hvaða skaði hefur einhvern tímann komið af því að kíkja aðeins?

14. des. 2004

Kannast einhver við þetta?

Nú er ég í "læripásu". Búinn að vera heima í allan dag og ætlaði svo sannarlega að vera duglegur við lærdóminn. Fyrst þegar ég sast niður í morgun að lesa þá fór óhreina tauið í vaskinum smám saman að líta mjög skemmtilega út og fyrr en varir er ég kominn með rauðu svuntuna okkar og byrjaður að vaska upp af miklum móð undir tónum Kim Larsen.

Svo þegar ekkert óhreint tau er eftir í húsinu sé ég að það er komin tími til að skila videospólum og geisladiskum á bókasafnið og við yfirlit á skólabækurnar sem bíða eftir mér þolinmóðar á borðinu hljómar ferð út á bókasafnið ótrúlega spennandi.

Við heimkomu byrja ég aftur af fullum krafti að lesa um alls konar frumur og ferli. Eftir smá tíma man rennur upp fyrir mér að ég er ekki búinn að kíkja á netið í næstum 6 klukkutíma! Tölvan lítur mjög girnilega út þar sem hún situr einmana og hljóðlaus á borðinu. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem ég verð að bæta úr og 5 mínútum seinna er ég byrjaður að vafra um internetið. Skrýtið að það sé ekkert nýtt búið að gerast síðan í morgun.

En nú finn ég hvernig augnaráð skólabókanna brenna á öxlinni minni, kannski eru þær líka orðnar einmana?

12. des. 2004

Dönskuráð

Ef það er eitthvað sem ég hef lært hér í Danmörku þá er það að danska er vangefin. Þessi grey geta einfaldlega ekki talað skiljanlegt tungumál. En á óferðum mínum á vegum dönskunnar hér í Aarhus hef ég komist að nokkru sem gæti hjálpað ykkur í framtíðinni ef það vildi svo til að þið þurftuð að tala þetta hrognamál.

1. Ekki tala skýrt.

Um leið og þið farið að tala skýrt og bera vel fram samhljóða þá skilja þeir ekki baun af því sem þú ert að reyna segja.

2. Talið eins og þið eruð með ælu á leiðinni upp vélindað.

Það er líka oft talað um að ímynda sér kartöflu í kokinu en mér finnst það einfaldlega ekki nægja.

3. Ef þið eruð í samræðum við Dana og munið ekki eitthvað sérstakt danskt orð þá eru til tvö ráð:

a) Berið fram ensku þýðinguna á orðinu eins og líst er í ráði númer 2.

b) Berið fram íslensku þýðinguna á orðinu eins og líst er í ráði númer 2.

Ef manneskjan stendur ennþá og horfir á þig eins og þú sért hálviti þá hafa hvorug ráðin virkað eða þú þarft að bæta smá ælu í kokið og prófa aftur. Ef seinni tilraun virkar ekki ertu fokked.

Að lokum vil ég minna ykkur á að r-hljóðið er ekki til í dönsku þannig að það hljóð er algjörlega tilgangslaust hérna.

Ef einhver kann fleiri ráð þá má hann endilega bæta þeim við, maður þarf á allri hjálp að halda hérna í útlandinu.

9. des. 2004

Smá aðvörun til ykkar

Ef ég væri indiáni þá myndi ég heita Stóra Bumba, ef ég væri rómverji myndi ég heita Bumbus Fitus Maximus. Já sannleikurinn er hræðilegur, síðan ég kom hingað til Danmerkur hef ég alveg hætt að hreyfa mig og útkoman er ein stór bumba.

Oft á tíðum hefur maður reynt að hreyfa sig eitthvað, ég hjólaði t.d. tvisvar í skólann sem ég lít ennþá á sem mikið afrek þar sem það tekur 40 mínútur að hjóla aðra leiðina. En því miður er það eina almennilega hreyfingin sem ég hef fengið hérna. Og svo hjálpar það ekki hvað bjórinn er ódýr! Þetta boðar ekki gott því að venjulega fitnar maður um jólin sjálf en ekki fyrir jólin!

Ég vildi bara vara ykkur við gott fólk svo að þið fáið ekki áfall þegar ég kem heim.

Hvernig mun ástandið eiginlega vera eftir jólin?

8. des. 2004

Svona til gamans

Hæ á linknum fyrir neðan getið þið séð alla nýnemana í læknisdeildinni hér í Aarhus Universitet. Ef þið viljið sjá hversu ótrúlega mikið myndin mín misheppnaðist þá veljið þið Hold 6 (bekkurinn minn) í felliglugganum uppi hægra meginn þar sem stendur Vælg hold og finnið síðan myndarlegasta strákinn í listanum. Einnig finnið þið hana Ínu, sem er hinn Íslendingurinn ásamt mér, í Hold 7.

Enjoy.

http://www.umbilicus.dk/blaabog/list.asp

6. des. 2004

3....2....1....BÚMMM!

Já við Hildur héldum aðventukaffi í gær og kerlingin fór hamförum í eldhúsinu. Vaknaði ég upp úr dádeginu og þar beið eftir mér í morgunmat heil skál með afgangssúkkulaðikremi til að sleikja. Svo þegar veislan byrjaði var hámað í sig súkkulaðiköku, gulrótarköku, hnetueitthvaðsúkkulaðiköku, bananabrauð og heitur brauðréttur þangað til ekki meira rúmaðist fyrir. Þegar kvöldaði var svo sest fyrir framan sjónvarpið og hámað í sig afgangs brauðrétt í kvöldmatinn. Maginn minn var næstum sprunginn af öllum þessum mat.

Svo í morgunn vaknaði ég og fékk mér gulrótarköku í morgunmat ásamt mjólkurglasi og hélt svo mína leið í skólann. Getið þið giskað á hvað ég fékk í nesti? Jú mikið rétt, súkkulaðikaka og gulrótarkaka ásamt afgangs twixi, allt síðan í gær.

Nú var ég að koma heim og það er eins og einhver hafði hent handsprengju inn í eldhúsið, allt á rúi og stúi! Þannig að ég skellti mér aðeins á netið áður en ég tek á þessum vígvelli. Kannski næ ég að hanga hérna þangað til að Hildur komi heim og sagt við hana með fullkomnum sakleysissvip: " Ég var sko á leiðinni að vaska upp :) "

Nú er bara spurningin hvort ég ætti að fá mér gulrótarköku eða súkkulaðiköku að borða?

5. des. 2004

Komið öll sæl og blessuð.

Gaman að sjá þig hérna! Já ég er byrjaður aftur að blogga, ég náði mér einhvern veginn aldrei aftur á strik eftir sumarpásuna mína en nú þýðir ekkert að slaka á.

Danmörk er fínt land, dálítið skrýtið stundum en hér er mjög gott að lifa. Reyndar var algjört helvíti að koma okkur fyrir hérna, fyrstu 6 vikurnar voru erfiðastar en eftir það fór allt að rúlla og nú er lífið frábært.

Síðasta fimmtudag fengum við loksins internet og heimasíma í íbúðina okkar, þá var nákvæmlega mánuður frá því að ég gekk inn í búðina á strikinu (já það er líka "strik" hérna í Aarhus) og pantaði internet/síma. Mér finnst nú danirnir vera alltof ligeglad á þessu. Jæja en anyways þá fengum við okkur fína adsl tengingu með ótakmörkuðu niðurhlaði (sniðugt íslensk nýyrði) og það er alveg frábært. Engar áhyggjur að fara yfir einhvað max download þannig að maður getur vappað um allt eins lengi og maður vill.

Vi snakkes!