28. jan. 2005

Íslendingur í Danmörku að dansa norskan swing dans

Já mikið rétt, annar danstíminn er búinn og ég stend mig ótrúlega vel þótt ég segi sjálfur frá. Þegar við Hildur komum heim næsta sumar þá eigum við sko eftir að sýna hvað í okkur býr á dansgólfinu á Þjóðleikhúskjallaranum.

En ég sé að ég þarf að fara í þjálfun í að heyra taktinn í lögunum sem við erum að dansa við. Eins og t.d. lagið sem við vorum að dansa við síðast þá heyrði ég bæði trommutakt og bassatakt og svo blandaðist allt hitt inn í og ég var alveg orðinn ruglaður. Ég vissi ekki eftir hvaða hljóðfæri ég átti að hlusta eftir. Ef ég hlustaði eftir trommunum þá truflaðist alltaf danstakturinn minn þegar það kom reglulega svona aukatrommutaktur.

Svo sátum við tvö í svona 15 mínútur áður en tíminn byrjaði þar sem Hildur klappaði yfir mér og taldi einn, tveir, þrír, fjórir í tilraun að fá mig til að skynja taktinn. En það ruglaði mig alltaf þegar það kom þessi aukatrommutakur ofan í þetta allt saman, hún sagði bara að ég væri of flókinn og væri að hlusta of nákvæmt á lagið.......kannski er það rétt hjá henni.

En hvað sem það er þá er ég kominn formlega í taktþjálfun........wish me luck!

18. jan. 2005

Búinn að lesa yfir mig strax?

Það er hægt að mennta sig í nánast öllu sem er hérna í Danmörku og mér finnst oft fyndið hversu fjölbreytt úrvalið er. Ég sá um daginn auglýsingu í blaði þar sem verið var að fjalla um nýja námsbraut í Aarhus Tekniske Skole. Þessi námsbraut innihélt tveggja ára nám fyrir ferskvöruaðstoðarmenn í matvörubúðum. Og það var ekkert verið að grínast í þessum málum.

Síðan þetta ár byrjaði hef ég ekki gert mikið annað en að lesa erfðafræði. Þessi kúrs endar síðan í prófi á laugardaginn. Eitthvað held ég að ég sé búinn að hugsa aðeins of mikið um þessa hluti síðustu daga ef eitthvað má marka síðustu nótt að minnsta kosti. Hildur vaknaði við mig um miðja nóttina þar sem ég er að halda einhverja stórmerkilega ræðu um litninga og DNA basa. Af forvitnissökum spyr hún mig hvað ég sé að tala um og ég svara henni að sé eins og ekkert annað sé eðlilegra og segist vera tengja litninga saman og teikna með puttanum í loftið hvernig ég fer að því. Að svo loknu sný ég mér á hina hliðina og held áfram að sofa eins og ekkert hafi í skorist. Ég get rétt ímyndað mér hversu mikið hún hafði hlegið að mér.

Ég hef nú séð menn sem hafa lesið yfir sig og það er ekki fögur sjón. Ég vil ekki enda svoleiðis. Í guðanna bænum látið mig vita strax ef þig sjáið einhver fleiri merki um að ég sé að fara yfir strik heilbrigðar skynsemi.

Ég held að ég taki mér góða pásu í næstu viku eftir prófið.

13. jan. 2005

Sviti og tár

Jæja, þá er kennari búinn að taka mig tvisvar upp á töflu fyrir framan alla og látinn svara alls konar spurningum og gera eitthvað dæmi. Ég gjörsamlega þoli þetta ekki!

Fyrra skiptið var ég bókstaflega hakkaður niður af leiðinlegri kellingu fyrir framan 50 manns. Þá átti ég að koma upp og tala um ótrúlega óskýra rafeindasmásjármynd og gjörsamlega útskýra allt sem ég sá. Þegar þetta gerist þá var ég rétt búinn að vera hérna í mánuð og skildi ekkert hvað var að gerast í tímunum. Ég skildi minna en 10% af því sem hún var að segja við mig og ennþá minna í myndinni. Það var hérna sem ég upplifði ótrúlega óþægilegt augnablik og geðveikt óþægilega þögn, hún s.s. spurði mig einhverjar spurningar sem ég skildi ekkert í og svo þagnaði hún og beið eftir svari. Ég vissi nákvæmlega ekki neitt hvað ég gat sagt þannig að ég brosti bara. Þannig brosti ég í örugglega 10 sekúndur og á meðan mátti heyra nál detta í kennslustofunni því að allir voru að bíða eftir mér að segja eitthvað. Auðvitað kom ekkert upp hjá mér og hún gafst að lokum upp á mér og tók prikið af mér og útskýrði restina (sem var nánast allt) sem var eftir og ég mátti setjast niður. Ég held að ég hafði misst svona heilan lítra af vatni í gegnum svita á þessari reynslu.

Næsta skipti gerðist sem betur fer ekki fyrr en í fyrradag og það reddaðist á endanum. Átti að reikna og útskýra eitthvað dæmi sem ég átti að vera búinn að gera en var ekki einu sinni búinn að líta það yfir. Svo talar þessi kennari svo þvoglumælt að ég á ótrúlega erfitt með að skilja hann. Hann þurfti s.s. að hjálpa mér í gegnum allt dæmið fyrir framan bekkinn minn. Þegar dæmið var hálfnað tek ég eftir því að ég er að snúa krít í lófanum mínum örugglega svona 100 hringi á sekúndu og segir það nóg um það hversu stressaður ég var. Svitatap var aðeins hálfur lítri sem er mjög mikil framför síðan síðast.

En hvað haldið þið að ég sé að fara gera bráðlega? Ég er að fara á kynningarnámskeið í swing DANSI! Já það er alveg dagsatt. Ég sé mig alveg fyrir mér sem John Travolta á dansgólfinu að gera áhorfendur alveg brjálaða. Ég hef nefnilega svo andskoti góðan takt og mússikalskan rythma að það er synd að rækta ekki þessa hæfileika .

(Mússík)
Ahhh Ahhh Ahhh Ahhhh staying alive.............staying alive.........

10. jan. 2005

Nu snakke jeg dansk!

Í dag sagði ég brandara á dönsku í skólanum......í dag lærði ég dönsku.

6. jan. 2005

Fyrsta blogg ársins

Gleðilegt nýtt ár öll sömul og takk fyrir það liðna. Það var frábært að komast heim og nú er ég sko aldeilis búinn að hlaða batteríin og það er eins gott því að mig mun ekki veita að því þessa önn. Mér þykir það leitt að ég náði ekki að hitta alla en ég lofa að bæta upp fyrir það næst þegar ég kem á klakann.

Það var nokkuð góð tilfinning að koma heim í Aarhus aftur, mun betri en ég bjóst við. Ég hefði viljað nokkra daga í viðbót heima. Skemmtileg tilbreyting líka að mæta á fyrsta skóladegi og geta skilið nánast allt sem fór þar fram. Ég gat ekki annað en hugsað hvernig þetta var í haust þegar ég skildi ekki orð og kom heim með dúndrandi hausverk eftir hvern einasta dag, gjörsamlega búinn. Skrýtið hvernig hlutirnir gerast stundum.

Svo var ég á vappi í bænum að fara versla fleiri skólabækur þegar tvær litlar danskar stelpur stoppuðu mig og spurðu mig til vegar. Oftast í þessum tilfellum hefur bara sagst ekki vita neitt of haldið áfram leið sína en ekki í þetta skiptið. Ég nefnilega skildi hvert einasta orð sem þær sögðu og ekki nóg með það þá gat ég sagt þeim í hvaða átt þær áttu að fara. Þetta fannst mér ótrúlegt og ég sveif eins og fiðrildi allan daginn af ánægju og stolti því að þennan dag talaði ég dönsku! Þegar ég kom heim nokkrum tímum síðar hringdi einhvar kall (greinilega með vitlaust númer) og ég skildi ekki bofs af því sem hann sagði og þar með lauk því tímabili sem ég talaði dönsku.

Nú er komið í umræðuna hér í Danörku að breyta einkunnarkvarðanum. Núverandi kvarði er alveg fáránlegur (0-3-5-6-7-8-9-10-11-13) og á að breyta honum í kvarða sem samræmist betur við erlendar hefðir (-3,0,2,4,7,10,12). Aðal ástæðan fyrir þessari breytingu er erfiðleikar að samræma danskar einkunnagjafið við erlenda skóla sem veldur mörgum nemendum miklur vandræðum, bæði dönskum nemendum sem fara út að læra og erlenda nemendur sem koma til Danmerkur. Einnig er í mörgum tilfellum ómögulegt að fá 13 og þar að auki hafa myndast mismunandi hefðir innan ýmissa deilda hvernig einkunnagjafir eru. Hinn nýji skali er hannaður þannig að hann passar við evrópska kvarðann ECTS (European Credit Transfer System) því að nýji kvarðinn hefur jafn marga stafi og sá evrópski.

Nýji skalinn: 12, 10, 7, 4, 2, 0, -3


ECTS: A, B, C, D, E, Fx, F

13-Skalinn(sá gamli): 13, 11, 10, 8, 9, 7, 6, 3, 5, 0

Þýðingar(á ECTS og nýja): Framúrskarandi, Ágætt, Gott, Sæmilegt, Nægilegt, Ónægilegt(fall), Algjörlega ónægilegt(fall)

Eins og ég sagði eru miklar umræður um þetta en það sem mér finnst skrýtið og hálffyndið er að það dettur engum í hug að breyta í 1-10 skala eins og er á Íslandi. Það er langrökréttasti kvarðinn! Ef þú færð 7 á prófi þá veit sá sem að skoða einkunnina þína að þú stóðst 70% af prófinu, hversu einfaldara getur það verið? Í staðinn er maður að dröslast með eitthvað ágætt og gott út um allt. Og hvernig er eiginlega gefið fyrir á hinum kvörðunum, hafið þið spáð í því? Ég las eitthvað um að ECTF kvarðinn er þannig að hæstu ca 10% fá A og miðju ca 30% fá C. Ég man ekki alveg hvernig þetta var en ég sá ekkert vit í þessu. Endilega fræðið mig um þetta ef þið vitið eitthvað meira.

Jæja orðið gott í bili, sjáumst öll hress og kát næst.