22. des. 2006

Jólagöngutúr

Já mamma og pabbi eru komin til okkar og í dag þegar þau voru búin að hvíla sig eftir ævintýralega ferð í brjáluðu veðri tókum við smá göngutúr í bænum :)






Enn og aftur, gleðileg jól öll sömul :)

Gleðileg jól!

Við hérna í Aarhus viljum óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að við sjáum ykkur öll aftur sem fyrst á nýju ári :)




14. des. 2006

Þetta fannst mér ótrúlega fyndið


Nýjasta bardagaíþróttin!




13. des. 2006

Geimfari og Norðurlönd

Ég er búinn að skoða mikið fréttirnar heima um síðasta skot geimferjunnar Discovery og mér finnst svolítið skrýtið að það gleyma flestir að Christer Fuglesang er ekki aðeins fyrsti Svíinn sem fer í geiminn heldur einnig sá fyrsti frá Norðurlöndunum og Skandinavíu.

Finnst mér það merkilegur áfangi og nauðsynlegt að minnast á í fréttum.

Ef þið þekkið einhverja fréttamenn þá endilega látið hann vita af þessu.

28. nóv. 2006

Enn önnur góð æfing

Já ég held áfram að blogga um mínar stundum ævintýralegu æfingar.

En í gær tókst mér að sparka augnlinsu úr einum gaur...bókstaflega.

Er þetta hæfni eða heppni/óvart?


Ég hallast að hæfni...spurning að taka svarta beltið bara?

23. nóv. 2006

Ágætis æfing

Já ég átti ágætis æfingu í gær.

Fyrst hélt einn þjálfari að ég væri foreldri að bíða eftir barninu mínu sem er á æfingu á undan okkur.

Klúðraði alveg þegar við vorum að gera poomse, er orðin rosalega ryðgaður og erum ekki búin að æfa þetta nógu vel finnst mér. Ég og öll bláu beltin stóðu s.s. uppi fyrir framan alla og kennarinn sagði okkur að gera poomse nr. 5, ég rétti upp hönd og sagði hátt og skýrt að ég kunni það ekki þannig að hann sagði mér að gera nr. 4 í staðinn. En ég man bara helminginn af því þannig að ég þurfti aftur að segja að ég kunni það heldur ekki. Þannig að ég endaði að gera nr. 3 hálf-skömmustulega...

Er oft að ruglast á æfingu í grunntækni, bæði af því að þeir æfa oft tæknir sem ég hef ekki gert áður eða kannast ekki vel við....og af því að ég skil ekki framburðinn hjá þeim sem er oft alveg fáránlegur!

Svo til að setja punktinn yfir i-ið þá sló ég sjálfan mig í andlitið þegar við vorum að æfa sjálfsvörn í lokinn og fékk blóðnasir.

Já það er ekki alltaf auðvelt að æfa eftir svona langa pásu...ALDREI TAKA PÁSU!

15. nóv. 2006

Fréttainnskot

Smá fréttainnskot.

Kannski það sem er efst á baugi er að kallinn er byrjaður aftur að æfa taekwondo! Var skellt sér á æfingu í síðustu viku og er að mæta á mínu fjórðu æfingu í kvöld og get ekki sagt annað að þetta er að ganga mjög vel.

Var klúbburinn Aarhus Taekwondo Klub fyrir valinu eftir miklar vangaveltur. Aðstaðan er mjög fín og á sama tíma rosalega dönsk t.d. eru kóngulóarvefir í öllum loftum og hornum (sérstaklega snyrtilegt í sturtuklefanum)...sem er nauðsynlegt í hvers kyns dönskum húsum ;)

En vægast sagt þá voru æfingarnar tvær í síðustu viku bara þær erfiðustu sem ég hef farið á síðan ég man eftir mér! Og ég hef nú farið á þær nokkrar ansi erfiðar, en þetta eru verðlaunin sem maður fær fyrir að ekki hreyfa á sér rassgatið í rúm 2 ár og mæta beint á æfingu í miðju tímabili þar sem allir eru búnir að æfa vel í nokkra mánuði!

Á fyrstu æfingunni var ég búinn eftir 20 min....og þá er ég að tala um búinn, færdig, slut, gat ekki hreyft mig! Næstu 70 min fóru bara í það að einbeita sér að halda æfingu út.
Á næstu æfingu kláraðist ég eftir 30 min...og næsti klukkutími fór í það sama og síðast, bara halda út! Við erum að tala um andköf, hristandi lappir, jafnvægisörðugleikar og allan pakkann!

Nú skil ég hvað fólk meinar þegar það segir að maður eigi ekki að taka pásu :)

En nú er þetta allt saman að koma hjá mér og nú er ég að byrja að þekkja spörkin mín betur...og nú held ég að ég tali um eitthvað annað.

Næsta frétt fyrir þá sem vita það ekki nú þegar er að við verðum hérna úti um jólin og komum sennilega ekki heim fyrr en um næsta sumar. Margt spilaði inn í en það var auðvitað skólinn hjá okkur báðum sem réði ferðinni að lokum.

Svo erum við búin að panta flug til London næsta janúar. Ég, Hildur og Guðný líffræðingur/læknanemi fengum farið á 5 DKK út og 20 DKK heim...þannig að við erum eiginlega bara að borga skattanna, í heildina var þetta ca 5000 ISL á mann fram og til baka, sem er auðvitað bara grínverð. Fáum við gistingu hjá vinafólki Hildar sem við erum mjög þakklát fyrir...einnig verður ekki leiðinlegt að hafa fólk á staðnum sem þekkir staðarhætti.

Man ekki fleiri fréttir í bili, þangað til næst :)

4. nóv. 2006

Dönsk símanúmer

Heimasími: (00 45) 88 83 56 81
Gemsi: (00 45) 60 64 17 59

30. okt. 2006

Norður Atlantshafs fjármála-víkingarnir!

Já þetta er eitt af gælunöfnunum sem ég heyrði í gær í fréttunum hérna í Danmörku.

Ekstra Bladet er að ásaka íslensk fyrirtæki fyrir alþjóðlegt skattasvik, peningaþvætti og jafnvel tengsl við rússnesku mafíuna þar sem við fáum pening sem við notum síðan til að kaupa upp fyrirtæki í heiminum.

Ég keypti þetta blað í gær í fyrsta skipti á ævinni, ekki oft sem ég kaupi svona sora, og ef satt skal segja þá var nú ekkert mikið varið í þessa grein. Engar sannanir birtar heldur einungis frekar einsleit umfjöllun þar sem er reynt að draga upp sem verstu mynd af íslenskum fjármálamönnum.

Svo var tekið viðtal við einhvern Rússa sem rekur lögfræðistofu sem á að hafa aðstoðað Íslendinga í viðskiptum hérna í Danmörku. Hann er svo tengdur við einhver vafasöm viðskipti í heimalandi sínu en aldrei eru nein bein tengsl sýnd á milli Íslands og þessara vafasama Rússa sem er minnst á.

Ritstjóri blaðsins segir að hann sé búinn að hafa menn vinnandi baki brotnu í marga mánuði í þessu máli og lofar fleiri umfjöllunum á næstu vikum sem á eftir að fletta ofan á gríðarlega flóknu svindl-kerfi ýmissa íslenskra fjármálafyrirtækja.

Í greininni draga þeir fram mynd af kerfi sem þeir segja KB banka nota til að svindla undan skatti...þá sérstaklega hérna í Danmörku að sjálfsögðu. Segja þeir að KB banki flytji peninga á milli banka m.a. í Lúxemborg og á fleiri stöðum í heiminum til að sleppa borga skatta. Segja þeir þetta vera mjög grunsamlegt kerfi og er t.d. hægt að nota til að hvítþvo peninga og er sennilega með rússneska mafíupeninga í huga þar. En á sama tíma segja þeir að þetta er ekki ólöglegt! Hvað er þá eiginlega að því að nota þetta kerfi?

En það verður spennandi að fylgjast með næstu greinum því að þetta á að verða einhver stór röð að greinum sem blaðið ætlar að birta á næstu vikum.

Þeir segja að þeir eru að fletta ofan að stórfelldum svikum og prettum...ég hlæ bara að þessu :)

Eins og gaurinn sagði í fréttunum í gær: „I hope they buy Tivoli next!“

27. okt. 2006

Tvífótartækling


Þetta er ein besta tækling sem ég hef séð...þetta minnir mig bara á Gunnar Jarl :)

20. okt. 2006

Sannleikur

"Við erfum ekki jörðina frá forfeðrum okkar...við lánum hana frá börnunum okkar"

18. okt. 2006

Sumarið í hnotskurn

Já síðasta sumar var frábært í alla staði og segir þessi mynd allt það sem segja þarf.





16. okt. 2006

Loksins frítt SMS í DK

Rúnar dómari og snillingur var svo duglegur að finna heimasíðu þar sem maður getur sent frítt SMS í Danmörku.

Síðan er hér.

Ég skellti einnig link á síðuna undir „Ýmislegt“ hérna til hliðar.

Einnig er þetta stórsniðugt fyrir ykkur fólkið heima sem vilja hafa samband við okkur eða bara senda okkur fyndin SMS :)

15. okt. 2006

Update

Jæja ég fékk ekki Nyhedsavisen í viku þannig að ég sendi þeim bara email....og viti menn, blaðið komið í póstkassan tveimur dögum seinna.

Allt mér að þakka þá fá líka allir aðrir sem búa hérna blaðið líka, flestum finnst þetta að vera komið alveg nóg þar sem við fáum núna 3 fríblöð á dag plús allt hitt draslið...en svona er bara að hafa Íslending í húsinu :)

8. okt. 2006

Tón-list

Það er alltaf gaman þegar maður uppgvötar nýja tónlistarmenn sem spila sig beint inn í hjartað á sér. Ekki gerist það oft fyrir mig enda hef ég aldrei (því miður) verið mjög tónlistarlega sinnaður, en það gerðist þegar ég fékk disk í afmælisgjöf með sífellt hækkandi íslenskri stjörnu að nafni Pétur Ben.

Platan heitir Wine for my weakness og er þetta fyrsta platan hans sem hann gefur út og sýnir hún strax hversu efnilegur hann er. Hann fær m.a. hjálp frá konu sinni og mörgum öðrum tónlistarmönnum sem gerir þetta að mjög skemmtilegri blöndu. Svo einnig er þetta allt frumsamið sem mér finnst alltaf jafn frábært/skemmtilegt, bæði texta- og lagasmíð eru í hágæðaflokki enda lendir þessi plata oft í tækinu okkar hérna í Aarhus :)

Langaði bara að segja ykkur frá þessu :)

PS. Ég fékk ekki Nyhedsavisen í gær né í morgun! Hvað er í gangi? Danirnir hérna úti greinlega ekki að standa sig í blaðadreifinguni. Ef þetta lagast ekki í næstu viku verð ég að gera eitthvað í þessu.


Wine for my weakness

5. okt. 2006

Nyhedsavisen/Fréttablaðið

Jæja á morgun kemur loksins hið íslensk/danska fréttablað "Nyhedsavisen" út hér í Danmörku. Það er búið að vera ansi forvitnilegt að fylgjast með öllum hamaganginum sem er búið að vera í kringum þetta allt saman.

Danirnir eru sko langt frá því sáttir að við litlu Íslendingar séu að troða okkur inn á fréttamarkaðinn þeirra og eru búnir að gera ýmsar ráðstafanir síðustu vikur í tilraun að hrekja okkur frá markaðinum þeirra.

Til dæmis byruðu tvö af stærstu fréttaútgáfunum hérna að gefa út sín eigin ókeypis "fréttablöð" alveg eins og Nyhedsavisen aðeins í þeim tilgangi að taka markaðshlutheild frá Nyhedsavisen. Og ekki nóg með það þá pössuðu þessi tvo fyrirtæki upp á það að ekki fara í samkeppni við hvort annað heldur aðeins Nyhedsavisen með því að ekki senda sín blöð á áskrifendur hins fyrirtækisins heldur aðeins sína eigin áskrifendur.

Það var auðvitað kært til samkeppnisráðs en ég veit ekki hvernig það endaði.

Einnig ætlaði Nyhedsavisen að kaupa áskrift að einhverri svona "fréttamiðstöð" sem er einhverskonar fréttaþjónusta sem þessar stóru fréttastofur nota en þeim var bara einfaldlega neitað að kaupa áskrift! Og ekki gefin nein góð skýring á af hverju.

Þetta var einnig kært að sjálfsögðu.

Það er sko greinilegt að við erum búnir að gera rosalega usla hérna í Danmörku með útgáfu Fréttablaðsins hérna og það verður ansi fróðlegt að sjá hvort þessi hugmynd gengur upp.

Svo eru fréttastofur um allan heim að fylgjast með hvort þetta gengur upp hjá okkur því að þetta er víst í fyrsta sinn sem þetta er reynt. Ef þetta gengur upp hjá okkur má búast við því að fréttastofur út um allan heim fylgi á eftir og það finnst mér ótrúlegt. Hverjum hefði dottið í hug að fréttastofur um allan heim myndi fylgjast svona náið með litla Fréttablaðinu okkar? :)

Munið á morgun þegar þið opnið póstkassan að lesa Nyhedsavisen og henda hinu draslinu :)

3. okt. 2006

Óskar Pólverji!

Já ég hefði getað verið Pólverji (eða þóst vera einn). Ég var í búðinni um daginn með Hildi og við vorum í einhverjum gasalega spennandi umræðum hvað við ættum eftir á innkaupalistanum okkar. Um leið og Hildur fer að sækja eitthvað kemur ókunnugur maður upp að mér og segir eitthvað óskiljanlegt við mig. Samtalið var einhvernveginn svona:

Ókunningi: Brsúnigls
Ég: Haa?
Ókunningi: Brsjandks polsk?
Ég: Hvad?
Ókunningi: Ó, so you speak polsk?
Ég: Eeeeehhh nej...
Ókunningi: Ó unskyld, jeg troede du snakkede polsk?
Ég: Eeeehhh nej...
Ókunningi: Min ven her (og benti á vin sinn) er polsk og hann troede at du snakkede polsk?
Ég: Eeeehhh nej...
Ókunningi: Hvilket sprog var det så?
Ég: Det var islandsk.
...................
Og svo endaði samtalið sem betur fer fljótlega eftir að ég var búinn að sannfæra hann um að ég væri ekki Pólverji.

Fyrir utan hvað þetta var rosalega asnalegt samtal þá kom mér mest á óvart að alöru Pólverji hélt á nokkurs vafa að ég væri einnig Pólverji. Hvernig gengur það fyrir sig eiginlega? Ég hef reyndar heyrt frá Pólverja að fólk frá Suður-Póllandi skilja ekki orð hjá þeim frá Norður-Póllandi, og öfugt að sjálfsögðu.

En án djóks hvernig virkar það eiginlega þegar fólk í sama landi geta ekki skilið hvort annað? Hugsið ykkur ef við þyrftum að kunna annað tungumál til að tala við fólk frá Akureyri.

Gæti ég farið til Póllands og þóst vera pólskur sveitastrákur norður í fjöllum?

Sendum Sveppa til að athuga þetta!

14. sep. 2006

Nei þú hér!

Komið þið öll saman sæl og blessuð. Já þá er loksins blogg-sumarpásan búin og maður er aftur kominn í skólan í Árósum.

Fengum nýja tölvu í gær eftir laaaaaangt tölvuleysi, það er ótrúlegt hvað maður er háður þessu helvíti. Hvernig var þetta eiginlega áður en netið kom? Við erum með þeim síðustu kynslóðum sem eiga eftir að muna hvernig þetta var....gaman að spá í það.
Síðan nýja tölvan kom inn á heimilið þá hef ég nánast ekki hreyft mig úr nýja skrifborðsstólnum okkar...Hildi sennilega til mikillar gremju ;)

En ég rakst á gamlar myndir af íbúðinni okkar þegar við vorum að mála og flytja inn...ég læt þær fylgja svona í lokin ;)


Mála forstofuna...


Fyrir...

Eftir...

Og eftir það...

Finito!

21. ágú. 2006

Danmörk enn og aftur...

Jæja þá er þetta eldsnögga sumar senn á enda hjá mér hér á Íslandsmiðum. Því á fimmtudaginn flýg ég aftur til Danmerkur, gisti 2 daga í Köben og svo held ég "heim" á leið til Aarhus.
Takk fyrir frábært sumar! Hlakka til að koma aftur heim til Íslands :)

31. júl. 2006

Verslunarmannahelgin!

Jæja gott fólk...næstu helgi verð ég staddur fyrir norðan. Byrja á tónleikum með Sigurrós í Ásbyrgi á föstudeginum og svo verð ég að mála götur Akureyrarbæjar rauðar, bleikar og bláar...
Ef þið verðið fyrir norðan næstu helgi...þá endilega bjallið í mig ;)

15. júl. 2006

Lofsöngur

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.
Texti: Matthías Jochumson
Lag: Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Áfram Ísland!

27. jún. 2006

23 ára!

Þennan dag í kringum 11:15 fyrir 23 árum þá kom ég inn í heiminn.
Mig langar bara að þakka öllum fyrir þessi frábæru 23 ár og vona að þau næstu verða ennþá betri :)

14. jún. 2006

Sumarfrí!

Eftir glæsilegan fyrirlestur og dúndur powerpoint show hjá mér og hópnum mínum í lífeðlisfræði þá er önnin formlega búinn og allir komnir í sumarfrí.
Þannig að nú er bara að pakka saman og ganga frá íbúðinni. Við höldum til Köben á morgunn og svo flýg ég heim á laugardagskvöldið.
En HM veislan heldur áfram...við sjáumst öll heima á Íslandi :)

10. jún. 2006

Party on Wayne....party on ???

Vááá...erum við að tala um einn besta opnunarleik HM í sögunni eða hvað? Nú var síðasti opnunarleikur rosalegur líka þegar Senegal vann Frakkland...en nú erum við að tala um 6 mörk í fyrsta leik og 2 af þeim verða pottþétt í topp 10 af flottustu mörkunum í mótinu!
Annars var einhver snillingur í bankanum sem tókst að skipta námslánunum mínum á 4 mánuði í staðin fyrir 5 mánuði eins og var samið um...sem þýðir auðvitað að ég fæ engin námslán þennan mánuðinn!
Og þið getið rétt svo ímyndað ykkur hvað það er búið að valda okkur miklum vandræðum...af hverju er alltaf svona mikið vesen á LÍN og bankanum...mér finnst alltaf eins og þessar tvær stofnir séu reglulega að letja/hindra mann í því að læra...þessar stofnanir hafa valdið mér sífelldum vandræðum síðan ég byrjaði hérna úti, þoli þetta ekki!
Ég gæti auðvitað ekki verið hérna úti án þeirra...en á sama tíma gera þau manni lífið ótrúlega erfitt! Án þess að ég vinn alla frídaga mína hvert sumar þá er ekki sjéns að ég myndi lifa af hérna.
Á sama tíma eru allir í bekknum mínum að tala um sumarið sitt, ég held að margir Danir séu aðeins of dekraðir...eða kannski er ég bara öfundsjúkur? Ein stelpa verður í heilan mánuð í Brasilíu að dúlla sér með kærastanum...einn strákur verður í BNA í íþróttabúðum að skemmta sér í 3 vikur...annar strákur er bara að fara slappa af í sumar, skreppa til París og taka smá rúnt þar í kring og kannski vinna pínu sagði hann! En nánast allir í bekknum mínum eru að fara til útlanda í sumar...og nánast enginn er að fara vinna!
Jæja...svona er lífið víst...

6. jún. 2006

Eftir mikið japl, jamml og fuður í teignum?

Haaaaaa?

Hvað í andskotanum er það? Þetta heyrði ég orðrétt í íþróttafréttunum á ruv í gær um landsleikinn á milli Hollands og Ástralíu í fótbolta...

Hvernig í heiminum datt manninum í hug að segja þetta? Eru menn alltaf að reyna búa til nýja frasa?

Hvað er að gerast?

5. jún. 2006

Heimkoma

Hummm mig grunar sterklega að það eru mjög fáir sem lesa bloggið mitt ennþá :/
Svona er þetta þegar maður tekur sér smá pásu...og tölvuvesen!
En ég mæti í Reykjavíkina seint laugardaginn 17. júní. Ég vonast til að eiga smá orku til að taka pínu rúnt í bæinn um kvöldið þannig að endilega bjallið í mig þetta kvöld og látið heyra í ykkur...ég verð á ferðinni :)
Og að lokum þá vil ég biðja bara alla sem eru að lesa þetta setja mig inn á msn listann sinn...það er alltof mikið af fólki sem mig vantar ennþá :)

27. maí 2006

I´m not an addict!

Já kæra fólk eftir næstum tvær vikur að tölvuleysi hér á heimilinu þá fékk ég lánaða tölvu næstu tvær vikurnar. Og ég get sko sagt ykkur það að þetta tölvuleysi er búið að vera svakalegt. Þegar ég keim heim úr skólanum þá lifi ég ekki af einn klukkutíma án þess að finna fyrir þörfinni að kíkja á netið, fréttir, blogg og slúður...alltaf það sama.

Ég fór að velta því fyrir mér hversu maður er háður þessu og hvort það eru fleiri hlutir sem maður er háður án þess að maður spáir út í það. Maður veit jú aldri hversu mikið maður saknar einhvers áður en maður missir það.

Það fyrsta sem mér datt í hug var klósettpappír. Hvað myndi nútímamaður eins og maður sjálfur gera án þess að hafa klósettpappír? Lífið yrði hræðilegt! Djöfull er maður mikil pempía og aumingji! Maðurinn hefur lifað hingað til síðustu þúsundir ára án klósettpappírs og enn lifa milljónir manna án hans...og hér er maður og þykist vera á toppi siðmenntunar í heiminum eftir árþúsundir þróunar.....en getur ekki lifað án klósettpappírs!

Hvað er það næst? Ísskápur! Hvað gerði maður án þess að hafa ísskáp til að geyma matinn sinn? Þá myndi matarfjölbreytnin aldeilis verða fábrotnari. Maður yrði að drekka mjólkina innan sólahrings, grænmeti og ávextir yrðu ónýtir eftir helmingri styttri tíma og maður fengi aldrei kalt kók með matnum!

Prófið að athuga hversu mikið af mat er í frystikistunni. Lífið yrði aðeins erfiðara ef maður gæti ekki fryst alla kjúklingana, fiskistykkin, nautahökkin o.s.frv.

Bíllinn. Ég las á netinu að þrátt fyrir gífurlegar hækkanir á bensíni þá hefur fólki ekkert fjölgað í strætó. Fólki er s.s. alveg sama hvað bensínið kostar, við nennum ekkert að standa í því að taka strætó, við viljum bara keyra okkar eigin bíl...þannig er það bara.

Ég sé að ég get haldi endalaust áfram...pokar, plast, yfirstrikunarpennar, pennar, pappír, sjónvarp, mp3spilari, útvarp/geislaspilari, DVD diskar, hnífapör, diskar, glös, skór, farsími, fjarstýring, kaffi, varasalvi, úr, season all, ostaskerari, upptakari, tyggjó, verkjatöflur, ofn, eldavél, uppþvottalögur,n salt, pipar, kakóduft, hveiti, ljósaperur...allt er þetta hlutir sem ég sé innar við 5 metra radíus og ég gæti ekki ímyndað mér að vera án.

Og maður þykist vera frjáls...ég er ómögulegur ef ég hef ekki gemsan minn eða get ekki drukkið kaffið mitt. Maður fattar það bara ekki fyrr en manni vantar eitthvað.

Ég held að þetta sé orðið nógu gott í bili...þar sem ég er frjáls þá kýs ég að hætta núna.

16. maí 2006

Og enn meiri seinkun...

Ja thvi midur akvad elsku tolvan min ad slokkva a ser i vikunni og neita ad ranka vid ser aftur. Eg er ad vinna i thessu en thad eru tho godar likur a thvi ad eg verdi tolvulaus thangad til næsta haust, a eftir ad athuga hvad kostar ad gera vid thetta kvikindi.
Thannig ad thad verdur sennilega enntha meiri bid a næsta bloggi hja mer. Ef thad er algerlega obærilegt fyrir ykkur tha er ykkur velkomid ad hringja bara i mig og kjafta vid mig i stadinn ;)
Annars var eg ad panta flugfarid heim, eg kem heim laugardagskvoldid 17. juni. Ad sjalfsogdu missi eg enn og aftur af 17. juni. Helvitis danirnir ad hafa skolan svona lengi!
En thar til næst......og vonandi verdur thad ekki alltof langt thangad til...

30. mar. 2006

Staðreynd

Til að meika það á Íslandi þá þarftu annað hvort að hafa mikla hæfileika.......eða Einar Bárðason

25. mar. 2006

Nokkrar fréttir frá Aarhus

Ótrúlegt hvað hvítur sloppur og nafnspjald getur gert mikið!
Núna á mánudaginn byrjaði ég í 6 vikna kúrs á sjúkrahúsinu í Viborg. Þarna vorum við 12 manna hópur af nemum mættir með skólatöskurnar á bakinu með ferköntuð augu eftir lestur síðasta árs. Þar var okkur hent í græn föt og hvítan læknaslopp með fínu nafnspjaldi, vasarnir fylltir af hlustunarpípu, litlu vasaljósi, reflex hamri og alls konar blaðsneflum og handbókum...og uppúr þessum læknanördahóp reis allt í einu alvöru læknanemar!
Svo var okkur dreift á hinar ýmissu deildir á sjúkrahúsinu og þar með byrjuðum við að ráfa um ganga sjúkrahússins í leit að þekkingu eins og vampírur í leit að blóði.
Í mínu tilfelli byrja ég fyrstu 3 vikurnar á bæklunarskurðlækningardeild og það hefur verið ekkert nema spennandi. Maður er búinn að fylgjast með fullt af aðgerðum, vera heilan dag á bráðamóttökunni og búinn að þvælast alls staðar á þessu sjúkrahúsi...ég er búinn að komast að því að ef ég er í hvítum slopp með nafnspjald sem segir "lægestuderende" þá kemst ég hvert sem er hehehehe :)
En auðvitað er galli á gjöf Njarðar...ég þarf að vakna klukkan 5 á hverjum morgni til að taka strætó á lestarstöðina og þaðan tek ég lestina til Viborg...sem tekur ca 1 klst 15 min. Guð má vita af hverju maður fær ekki að vera á sjúkrahúsina hérna rétt hjá...sem er í 5 min hjólafjarlægð! Auðvitað þurfa Danirnir alltaf að gera hlutina svo flókna!
Stundum er ég ekki alveg viss hvað Danir halda um Ísland...rúmlega helmingur af þeim Dönum sem ég hef hitt hafa spurt mig hvort það sé ekki hægt að læra læknisfræði á Íslandi...og þegar ég svara játandi þá kemur pínu undrunarsvipur á þá og "af hverju ertu að læra í Danmörku" spurningin. Það kemur mörgum greinilega á óvart að það sé hægt að læra þetta heima.
En ég held að ég rakst á toppinn í vikunni. Læknirinn sem sér um okkur á spítalanum var að sýna okku hvar fötin eru geymd og svoleiðis...svo er hann að láta okkur fá hvíta tréskó sem allir á spítalanum ganga í. Þetta eru alveg svakalega óþægilegir skór og þegar við erum að máta þá sem passa okkur best þá hann minnist svona á það að þetta séu ekki þeir þægilegustu skór í heimi o.s.frv.
En þá spyr hann mig hvort við Íslendingar göngum í tréskóm heima á Íslandi! Og hvort ég væri kannski vanur að ganga í svona skóm!
Ég hélt að ég yrði ekki eldri, auðvitað hélt ég að hann væri að grínast maðurinn.....en neiiiiii, þetta var ekkert grín, hann hélt í alvörunni að það væri algengt að við Íslendingar gengu í tréskóm....................fífl!
Þegar ég var lítill hugsaði ég stundum hvort ég gæti verið með vampírublóð í mér. Kannski var það af því að mér fannst svo gaman að horfa á vampírumyndir og er með ofvirkt ímyndunarafl...en við skulum ekki pæla of mikið í svona hlutum :) . Ástæðan er sú að ég hef alltaf verið svo rosalega næturmanneskja. Það er ekki fyrr en á kvöldin sem ég kemst í almennilegt stuð, og ég vakna aldrei almennilega fyrr en eftir hádegismat sama hversu snemma ég vakna.
Og það hefur svo sannarlega reynt á þetta þegar maður þarf að vakna klukkan 5 á hverjum morgni, og það hefur ekki verið auðvelt að breyta líkamsklukkunni. En það hefur gengið ágætlega, mættur snemma í rúmið klukkan 20:30 og sofnaður uppúr níu...aldrei á æfinni hef ég gert það áður. Og ég vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að gera það aftur.
Svo í morgunn þegar ég ætlaði svoleiðis að njóta þess að sofa út eftir erfiða viku þá vaknaði ég alveg útsofinn og eldhress klukkan 08:00 .... og það var ekki mjög vinsælt hinum megin í rúminu hehe :)
En nóg í bili...klukkan er að nálgast miðnætti, háttatími komin ;)

4. mar. 2006

Enn annað laugardagskvöldið...þremur vikum seinna

Þegar ég byrja að blogga núna þá vil ég segja að það sé ekkert að frétta...en þegar ég hugsa betur þá er heilmikið að frétta. Ég hef oft hugsað út í það hvernig bloggari maður vill vera, allir hafa sinn stíl og sumir eru bara skemmtilegri en aðrir. Auðvitað vill maður vera algjör snilldarbloggari sem dregur að sér lesendur frá öllum áttum...en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þá er ég ánægður með alla þá lesendur sem ég hef :)
En hvernig blogg eru skemmtilegust...það eru til margar tegundir, eins og t.d:
1. Athafnamaðurinn
Þessar bloggfærslur einkennast af setningum eins og: Í gær fór ég í bíó með þessum og svo fórum við á rúntinn með þessum og síðan hittum við þennan sem var rosa hress og þegar ég vaknaði hringdi ég í þennan og við fórum út að borða o.s.frv.
Sem sagt aðeins staðreyndir hvað hefur drifið á síðustu daga. Mér finnst þessar færslur svakalega leiðinlegar hjá fólki sem ég þekki ekki vel....af hverju....jú mér er alveg sama...punktur.
En á sama tíma eru þetta nauðsynlegar og oft skemmtilegar færslur hjá fólki sem maður þekkir mjög vel og hittir oft...þá segir maður t.d. við næsta hitting: Já þú fórst í bíó um helgina, hvernig var myndin annars? Strax er maður komin með umræðuefni...og það er alltaf gott mál.
Svo er þetta nauðsynleg blogg fyrir fjölskyldumeðlimi sem vilja fylgjast með því hvað maður er að bralla...
2. Pólitíkusinn
Þessi veit alltaf miklu betur en pólitíkusarnir og hefur alltaf svörin við öllu. Ef maður hefur áhuga á pólitík þá er þetta alltaf skemmtileg lesning og gaman að kommenta og koma af stað rökræðum...ef ekki þá hættir maður að lesa eftir þrjú orð.
3. Tónlistar/kvikmynda-gúrúinn
Hérna eru annað hvort kvikmyndir eða tónlist á matseðlinum. Ekki flókið, annað hvort er maður inn eða ekki.
4. Hugleiðarinn
Þetta er oftast skemmtilegustu færslurnar mínar. Hérna eru skemmtilegar pælingar um lífið og tilveruna eða fyndnar hugleiðingar um eitthvað hversdagslegt sem kemur manni til að hlæja. Mér finnst oft ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig fólk hugsar stundum, oft les maður pælingar sem manni hafði aldrei pælt í áður þrátt fyrir að það hefur verið fyrir framan mann alla sína ævi....maður opnaði bara aldrei augun fyrir því og hugsaði aldrei út í það...einnig sér maður í eitt augnablik vel inn í hugarheim þess sem er að blogga...þess vegna eru þetta uppáhaldsfærslurnar mínar, hressir upp á tilveruna.
5. b2-wannabe
Hér er aðeins eitt markmið...að komast inn á b2.is eða einhverja álíka tenglasíðu til að öðlast lítin celeb-titil á litla Íslandi. Og af hverju ekki, þetta tókst hjá t.d. fazmo lúðunum...þeir hönnuðu fína heimasíðu, keyptu einfalt og gott lén, birtu myndir af gellum og sjálfum sér berum að ofan eftir milljón ljósatíma og lyftingar og allt í einu eru þeir komnir með celeb stimpil sem þeir nota til að komast í VIP-röðina á Hverfis eða Oliver...sem er toppurinn á tilverunni hjá þeim...ooooohhhhh hvað ég vildi að ég væri þeir...
6. Súper gelgjurnar
Smá tískubylgja sem kom upp fyrir nokkru síðan...sem betur fer eru fólk að hætta taka mark á þessum stelpum..ég þarf ekki að segja meira.
7. Kvikmyndagetraunin hans Sævars (www.kjammi.blogspot.com)
Klassík sem ég er orðinn háður...veit ekki hversu oft sem ég hef verið að læra og séð nýjustu getraunina og fengið fiðring við tilhugsunina að reyna leysa hana.
6. Kaflaskipt þema hjá Jóeli (www.joelkristinn.blogspot.com)
Einföld og skemmtileg pæling...þú segir allt sem þú hefur að segja og meira að segja skiptir því í kafla fyrir mann. Auðvelt að lesa og þægilegt...sérstaklega þegar maður er að flýta sér, er óþolinmóður eða er að lesa 20. bloggið sitt í röð.
Innskot:
Af hverju er auðveldara að lesa kaflaskiptan texta en eina laaaaanga málsgrein? Þegar ég sé eina samfellda málsgrein sem er a.m.k. 2000 orð þá nenni ég hreinlega ekki að klára hana...en ef henni er skipt í 10 hluta þá er það allta annað mál! Mikið er maður ruglaður...Bóas þú ert kannski með einhverja skýringu á þessu?
Einnig er þetta frábært þegar maður er að kommenta...já ég er alveg sammála þér í kafla fjögur o.s.frv. Hér er einnig hægt að koma með öll blogg þema í eitt blogg, allt í einu pakka...algjör snilld þegar maður hugsar út í það...
---------------------------
Ég man ekki fleiri í augnablikinu, ef þið getið komið með fleiri þá endilega kommentið og segið frá!
En svo eru mörg blogg blanda af þessum ofannefndu...þannig að oftast fær maður góðan koktail :)
En að lokum þá kemur stutt af því sem ég hef verið að bralla síðustu 3 vikurnar:
  • Flutti í nýja íbúð í Skejby (Sjálfir flutningarnir stóðu í eina klukkustund sem hlýtur að vera heimsmet!)
  • Málaði (að hluta) gömlu íbúðina okkar í Trige.
  • Málaði alla nýju íbúðina með frábærum aðstoðarmönnum á tveimur dögum.
  • Er á leiðinni í klinik í skólanum....þar sem ég verð að elta lækna út um allt á sjúkrahúsi að fylgjast með aðgerðum og öllu sem gerist þar...spennandi!
  • Mamma og pabbi komu í heimsókn, fórum t.d. að skoða sumarbústað konungsfjölskyldunnar og borðuðum æðislegan grískan mat...erfitt að toppa það.
  • Keypti fyrsta sófann minn!
  • Keypti fyrstu ryksguguna mína!

Og að allra lokum...þá fór ég í fyrsta skipti á ævinni einn í bíó í kvöld. Málið var þannig með vexti að Hildur hélt lítil stelpukvöld áðan og þá var ég einfaldlega rekinn út...þannig að ég endaði á því að fara einn í bæinn, og þrátt fyrir það sem ég hafði ímyndað mér þá endaði þetta í frábæru kvöldi hjá mér.

Ég fór í bæinn, náði mér í eitt stykki fréttablað, fékk mér kebab og blaðaði í blaðinu, fór síðan á kaffihús og fékk mér expresso og kláraði blaðið yfir skemmtilegri tónlist...og þegar blaðið var búið var kominn tími á kvikmyndina...s.s. það rættist mjög vel úr kvöldinu þrátt fyrir miklar áhyggjur hjá mér. Kannski maður fari oftar einn í bíó?

En nú sit ég heima í miðju stelpukvöldi þar sem þær slá á frábæra tóna yfir Sing Star...ég nýt þess að vera fluga á vegg núna hahahahaha...

11. feb. 2006

Laugardagskvöldshugleiðingar

Hef oft spáð í því frá því að ég byrjaði í skóla hérna úti hversu mikið tungumál getur haft áhrif hvernig fólk sér mann þ.e. hvernig persónuleiki maður er. Fyrsu mánuðina mína hérna reyndi ég bara að sitja aftast í kennslustofunni og gerði mitt besta að komast í gegnum daginn án þess að þurfa tala eitthvað af viti...því að ég kunni einmitt ekki orð í dönsku...fyrir utan "ég heiti Óskar og er frá Íslandi"...
Hvernig skynjuðu krakkarnir mig fyrsta árið? Sennilega hafa þeir talið mig vera mjög feimin og hlédrægan sem vill helst bara vera einn, ég hef örugglega verið svona "ruglaði Íslendingurinn"...
En ef þetta hefði verið heima þá hefðu bekkjarfélagar mínir kannski fundið ég vera mjög opinskár og hress sem er strax farinn að skipuleggja partý eftir 1. vikuna.
Þannig að sá Óskar sem dönsku krakkarnir þekkja er alls ekki hinn alvöru Óskar! Síðan ég fattaði það leið mér eins og ég er með klofinn persónuleika, danskan og íslenskan. Á morgnanna í skólanum er ég hinn danski Óskar en um leið og ég kem heim þá kemur hinn íslenski fram í sviðsljósið. Ætli danirnir munu einhverntímann kynnast hinum sanna Óskari?
Ég er með grænlendingi í bekk sem heitir Inuuteq og stelpu sem heitir Demet. Venjulega væri þetta ekki fyndið en í hvert skipti sem ég heyri nafnið þeirra þá fer á næstum að hlæja. Ástæðan er sú að ég heyri ekki Inuuteq heldur Imhotep og hugsa um múmíuna í The Mummy myndunum...sé ég þá fyrir mér litla grænlendinginn í pýramída í Egyptalandi í vafningum eltandi þá lifandi.
Svo þegar ég heyri nafnið Demet þá hugsa ég bara ameríska blótið "damn it!"...og það finnst mér ógeðslega fyndið...ég sé fyrir mér pabba hennar að vera skamma hana: God damn it, Demet!
Hahahaha já það er gott að geta stundum skemmt sjálfum sér...

3. feb. 2006

Múhammeðs-teikningar og hugleiðingar

Það er allt gjörsamlega orðið brjálað út af þessum teikningum af Múhammeð sem voru birtar í Jyllands Posten í september síðastliðinn. Við erum að tala um að það er búið að:
  • Hóta listamönnunum sem gerði teikningarnar lífláti
  • Tvisvar búið að koma með sprengjuhótun á skifstofur Jyllands Posten
  • Yfir 300 manns réðust á danska sendiráðið í Indonesíu og ollu miklum skemmdum
  • Ráðast á starfsmenn Arla (dansk fyrirtæki) í einhverju af austurlöndunum.
  • Sniðganga margar danskar vörur t.d. í Saudi-Arabíu
  • Hóta sjálfsmorðssprenginum í Danmörku
  • Að minnsta kosti einn danskur sendiherra var rekinn úr landi
  • Danski fáninn brenndur á opinberum mótmælum þar sem fólk vopnað byssum og riflum hrópa alls kyns haturorð gegn Dönum.
Flest af þessum atriðum eru algjörlega út úr kortinu, hvernig í ósköpunum er hægt að bregðast svona gífurlega harkalega við nokkrum teikningum. Sumir segja að þetta hafi bara verið dropinn sem fyllti mælinn, en ég meina.......slappið aðeins af!

Þeir mest róttækustu, t.d. þeir sem eru að hóta sjálfsmorðssprenginum, segja að blóð Dana þurfi að renna...það sé hefnd spámannsins þeirra. Ég veit nú ekki mikið um Islam né Múhammeð en var hann ekki spámaður Guðs? Var hann ekki að boða frið á milli manna o.s.frv.? Hvernig geta trúaðir múslimar haldið að þeir séu að gera svona hluti í hans nafni? Er þetta ekki bara móðgun við það sem hann var að boða og hans nafn?
..............eða veit ég bara alls ekkert um Islam???

Vissuð þið að Islam þýðir friður!

Það fór sendinefnd frá múslimskum Dönum til austurlandanna til þess að vekja athygli á þessum teikningum. Eða var það til þess að vekja upp reiði? Við erum að tala um að þessar teikningar voru birtar í september, aðeins á síðustu vikum hafa þessi harkalegu viðbrögð komið upp á yfirborðið...sem ég held er á mjög svipuðum tíma og þessi "sendinefnd" fór út.

Það er oft talað um það hérna úti hversu erfitt getur verið að gagnrýna múslima eða skrifa fréttir sem um Islam o.s.frv...því að oft er þetta túlkað sem vanvirðing og þá verða allir múslimarnir brjálaðir! Í því samfélagi sem við lifum í eru allir gagnrýndir, svo einfalt er það. Og ef einhver er fúll.....þá bara hann um það! Hann getur ákveðið að annað hvort að fara í fýlu eða svara gagnrýninni á sama vettvangi og skapað skynsamlegar umræður....þetta finnst mér oft vera eitthvað sem margir skilja ekki.

Svo verða múslimar hérna í Danmörku líka að skilja að þeir eru í DANMÖRKU...þeir fluttu hingað frá sínu heimalandi til að leita betra lífs og það þýðir að þeir verða að aðlagast dönsku samfélagi, það þýðir ekki að flytja hingað og heimta að hlutirnir ganga eins fyrir sig og í sínu heimalandi. T.d. ríkir hér tjáningafrelsi og Danmörk er ekki múslimsk þjóð. Ef eitthver lítill blaðsnepill ákveður að birta teikningar af Múhammeð má hann það alveg, það er ekkert sem bannað þeim það....jú nema Islamskar reglur...sem ríkja ekki yfir þeim. Mér finnst að múslimar verða að sætta sig við þau lög og réttindi sem ríkja hérna í Danmörku og hætta þessu væli.

Ef ég myndi flytja til Pakistan þá yrði ég hreint og beint að aðlagast þeirra samfélagi, þetta er þeirra samfélag. Já ég myndi oft vera ósammála þeim í mörgu en það er bara eitthvað sem ég verð að sætta mig við. Þetta er þeirra land og ég yrði að virða þær reglur sem gilda. Þannig er það bara.

Við erum ekki að tala síendurtekin atburð...þetta var ein grein og 12 teikningar sem fylgdu með...that´s it! Ég myndi kannski skilja þá ef blaðið væri búið að birta greinar og teikningar sem væru móðgandi fyrir múslima í sí og æ...en það er alls ekki tilfellið.

Og af hverju skiptir þetta múslimum í Saudi-Arabíu svona gífurlega miklu máli? Er okkur ekki alveg sama hvað einhvað blað í Pakistan birtir? Jú okkur er slétt sama...sé ég okkur fyrir mér að hóta fólki lífláti ef einhverjir í austurlöndunum myndu birta skopteikningar af Jesús eða gagnrýnandi grein um Kristni....nei ég held ekki!

Múslimar segja alltaf að við verðum að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni...en þeir verða einnig að sjá hlutina frá okkar sjónarhorni! Mér finnst fáir gera það í þessu tilfelli.

Þetta er ótrúlegt þegar maður hugsar út í þetta. Hvernig í ósköpunum gat ein blaðagrein ásamt 12 teikningum orsakað svona gífurlega alþjóðleg viðbrjögð?

Skrifstofur Jyllands Posten er einmitt hérna í Aarhus (og líka í Koben). Það var ótrúlegt að upplifa alvöru sprengjuhótun svona nálægt sér, soldi creepy. Ef satt skal segja er maður orðinn bara soldið á nálunum yfir öllum þessum hótunum...maður er bara að bíða eftir einni sjálfsmorðssprengju eða svo...og það er ekki góð tilhugsun. Og þegar maður er kominn á þessar nótur verður maður smeykur að taka strætó daginn eftir...þá hugsa ég til fólksins í London og hvernig það tókst á við hryðjuverkin þar daginn eftir...það þurfti hugrekki, annað er ekki spurning.

Og það er ekki eins og þetta er í fyrsta skipti sem teikningar af Múhammeð eru birtar...ef maður flettir upp á netinu finnur maður margar teikningar. Og það hafa meira að segja verið dæmi um að teikningar hafa verið gerðar án þess að hafa verið mótmælt.

Ég heyrði einn gaur frá Saudi Arabíu að rökstyðja mótmælin. Hann sagði að blöð í Danmörku myndu aldrei birta t.d. hakakross eða eitthvað tengt gyðingahatri...það væri að fara yfir strikið og það fannst honum vera það nákvæmlega sama í þessu tilfelli með teikningarnar. Góður punktur hjá honum......en að mínu mati er hann aaaaaaaansi langt frá þessu máli. Hakakross og gyðingahatur er allt annað mál en 12 teikningar af spámanninum og gagnrýnandi grein.

Ég er ekki að segja að mótmælin séu ekki rétt. Ég skil s.s. alveg þeirra sjónarmið...ein þeir verða einnig skilja okkar. Og hvernig þeir mótmæla með ofbeldi og hótunum setja þá sem gera það á mjög lágan stall og eru múslimum og mannkyninu til skammar. Ef fólk vill mótmæla þá er það gert á almennan hátt með skynsamlegri og rökstuddri umræðu.....aldrei ofbeldi! Skapið spennandi umræðu um mismun á kynþáttum og trúarbrögðum, það er eitthvað sem er bara gaman af og er ávallt velkomið í þróuðu samfélagi.

Ég vil taka það samt fram að ég hef ekkert móti Islam eða múslimum. Ég hef trú á fjölbreyttu og margkynþátta samfélagi...það er framtíðinn, landamæri eru að hverfa og fólk er að verða eitt. Því fyrr sem fólk áttar sig á því...því betra.

Því að hvað sem mun gerast þá munum við öll þegar á botninn er hvolft ennþá lifa á þessari litlu jörð saman. Af hverju eyða tíma okkar í rifrildi og ofbeldi þegar við getum unnið saman að byggja þessa jörð saman oag lifað í sátt og samlyndi....skapa alheimssamfélag þar sem friður er ríkjandi handa börnunum okkar. Hugsum til framtíðar..........

Ég endurtek mig frá fyrri færslu....ég hefði haldið að við hefðum náð lengra á þessum tíma sem við höfum byggt þessa jörð.

Ég er kominn með nóg af svona heimsku....hættum þessu og byrjum að einbeita okkur af því sem skiptir máli...framtíðinni.

23. jan. 2006

Heimsáhyggjur

Ég hef áhyggjur af heiminum, hvernig hann er og hvert hann stefnir. Það er hreinlega ofar mínum skilningi af hverju það er svona erfitt að lifa saman í sátt og samlyndi.
Stríð, sjálfsmorðssprengingar, hungursneyðar og hamfarir eru orðin svo algeng orð í fréttum að maður er löngu hættur að kippa sér upp við það þegar maður les fyrirsagnirnar. Ég nenni t.d. ekki að skoða frétt á mbl.is sem tengist sjálfsmorðssprenginu í Ísrael eða Palestínu, ég renni bara yfir þessar fyrirsagnir af því að svona fréttir koma næstum á hverjum einasta degi. Og það er nákvæmlega það sem ég hef áhyggjur af. Aldrei hefði mér dottið í hug að fréttir um sjálfsmorðssprengingar myndu ekki vekja neinn einasta áhuga hjá mér, manni er orðið alveg sama um ástandið í heiminum af því að maður er einfaldlega orðinn vanur þessu...of vanur þessu, annað sem ég bjóst aldrei við. Hvað næst?
Maður myndi nú halda að heimurinn væri kominn aðeins lengra á þessum tíma sem við höfum verið til. Mér líður eins og að ég sé pirraður og vonsvikinn út í mannkynið, næstum búinn að missa alla trú á okkur...ég efast að við munum lifa af.
Váá hvað þetta er eitthvað dimmt blogg hjá mér þegar ég les það yfir, ég er hættur þessu núna...ég reyni að koma með eitthvað skemmtilegt blogg næst :)

20. jan. 2006

Fréttayfirlit

Já nýjustu fréttir eru þær að við munum flytja um miðjan febrúar nær miðbænum og menntasetrunum okkar beggja. Hildur mun njóta þeirra fríðinda að geta labbað í skólann á aðeins 5 min en fyrir mig er það ca 10 min á hjóli eða í strætó, og yfir því er ég ekkert að kvarta.
Annars stefnir á taekwondo veislu hjá mér um helgina því að Norðurlandamótið verður haldið núna um helgina hérna rétt hjá mér. Hér gefst frábært tækifæri til þess að prófa nýjustu græjuna mína. Hildur gaf mér þessa frábæru video-upptökuvél og mun ég nota hana óspart til að ná sem flestum af Íslendingunum keppa og vonandi einhverju djúsí þ.e. ef eitthvað svoleiðis gerist ;)
Ég var að átta mig á því að síðustu blogg hjá mér eru búin að vera frekar dapurleg...nei þau eru búin að vera hreint út leiðinleg. Ég meina síðustu tvær fyrirsagnir hjá mér eru búnar að hafa titilinn Kominn aftur, Jájá og Jæja...sem segir allt um hversu hugmyndaríkur ég er búinn að vera. Og þá rann það upp fyrir mér að ég fæ mínar bestu blogghugmyndir þegar ég er búinn að lesa yfir mig...eða það finnst mér a.m.k.
Það er greinilegt að eftir nógu mikinn lestur þá fer ímyndunaraflið hjá mér fyrst að fljúga. Það er jú allt betra en að lesa eitthvað sem maður nennir ekki að lesa er það ekki? Og það passar þegar ég fer að hugsa út í það, í fyrra þegar ég var oft að lesa yfir mig þá fékk ég oft ótrúlega skemmtilegar hugmyndir sem ég gæti bloggað um (eða mér fannst það a.m.k. þegar mér datt þær í hug). Núna í próflestrinum fyrir jól þá las ég bara það mikið að ég hafði ekki einu sinni tíma til þess að fara á internetið og þar af leiðandi hafði ekki tíma til að blogga um þær "skemmtilegu" pælingar sem mér datt í hug...og þegar ég hugsa betur út í það þá held ég að það sé bara best fyrir alla.
Og ef þetta er rétt hjá mér þá líta næstu mánuðir ekki vel út hjá mér blogglega séð. Þar sem ég er á leiðinni á 3.önn sem er fræg fyrir það að hafa mjööööög lítil lestrarefni og meira afslappelsi þá er ég hræddur um að skemmtanagildið í blogginu mínu verði ansi dapurlegt fram að næstu önn sem byrjar september 2006.
Og af hverju er gaman að blogga, jú af því að annað fólk les það sem maður er að segja og oft skapast skemmtilegar umræður út frá því. Þegar maður bloggar fær maður einfaldlega útrás fyrir einhverri skrýtni þörf til að tjá sig og þess vegna er það algjört skilyrði að fólk les ruglið sem maður er að skrifa.
Og þegar ég er búinn að komast að þessari niðustöðu af hverju í heiminum er ég að skrifa þetta sem ég var að skrifa...því að ég er í raun að segja að ég mun ekki blogga um neitt af viti fyrr en í september 2006! Og það getur ekki verið "good for business"...
Þannig að ég held að það sé best að hætta núna áður en ég fæli fleiri af þeim fáu lesendum í burtu...þannig að ég bið að heilsa í bili :)

12. jan. 2006

Kominn aftur

Já nú er maður loksins kominn aftur eftir smá pásu. Það helsta sem er að frétta af mér er að ég fékk 8 í anatomiu prófinu mínu og er þess vegna að byrja á minni 3. önn núna í lok janúar. Hildur byrjar í sjúkraþjálfun einnig á sama tíma og vonandi flytjum við um miðjan febrúar nær skólunum okkar beggja.
Ég spáði oft í því í próflestrinum mínum í desember hversu skólinn væri miklu auðveldari ef ég myndi námsefnið jafn vel og ég man bíómyndir og hefði sama metnað til að lesa og ég hef í að æfa...ef svo væri þá væri heimurinn svo miklu auðveldari...jaaa a.m.k. fyrir mitt leyti.
Um jólin fékk ég frábært tækifæri að fljúga með Magnúsi vini mínum, flugum við yfir Breiðholtið, fram hjá Bláfjöllum, Nesjavelli, Selfoss, sumarbústaðinn okkar í Grímsnesi, Bakka, lentum í Eyjum og flugum svo beint heim eftir smá stopp þar. Þetta var alveg frábær ferð og ætla ég að enda þetta blogg með nokkrum myndum sem ég tók...og Magnús, takk fyrir flugið ;)

Huummmm.....hvað mun bíða mín í háloftunum

Magnús flugmaður stendur sko fyrir sínu

Breiðholtið góða


Selfoss