25. mar. 2006

Nokkrar fréttir frá Aarhus

Ótrúlegt hvað hvítur sloppur og nafnspjald getur gert mikið!
Núna á mánudaginn byrjaði ég í 6 vikna kúrs á sjúkrahúsinu í Viborg. Þarna vorum við 12 manna hópur af nemum mættir með skólatöskurnar á bakinu með ferköntuð augu eftir lestur síðasta árs. Þar var okkur hent í græn föt og hvítan læknaslopp með fínu nafnspjaldi, vasarnir fylltir af hlustunarpípu, litlu vasaljósi, reflex hamri og alls konar blaðsneflum og handbókum...og uppúr þessum læknanördahóp reis allt í einu alvöru læknanemar!
Svo var okkur dreift á hinar ýmissu deildir á sjúkrahúsinu og þar með byrjuðum við að ráfa um ganga sjúkrahússins í leit að þekkingu eins og vampírur í leit að blóði.
Í mínu tilfelli byrja ég fyrstu 3 vikurnar á bæklunarskurðlækningardeild og það hefur verið ekkert nema spennandi. Maður er búinn að fylgjast með fullt af aðgerðum, vera heilan dag á bráðamóttökunni og búinn að þvælast alls staðar á þessu sjúkrahúsi...ég er búinn að komast að því að ef ég er í hvítum slopp með nafnspjald sem segir "lægestuderende" þá kemst ég hvert sem er hehehehe :)
En auðvitað er galli á gjöf Njarðar...ég þarf að vakna klukkan 5 á hverjum morgni til að taka strætó á lestarstöðina og þaðan tek ég lestina til Viborg...sem tekur ca 1 klst 15 min. Guð má vita af hverju maður fær ekki að vera á sjúkrahúsina hérna rétt hjá...sem er í 5 min hjólafjarlægð! Auðvitað þurfa Danirnir alltaf að gera hlutina svo flókna!
Stundum er ég ekki alveg viss hvað Danir halda um Ísland...rúmlega helmingur af þeim Dönum sem ég hef hitt hafa spurt mig hvort það sé ekki hægt að læra læknisfræði á Íslandi...og þegar ég svara játandi þá kemur pínu undrunarsvipur á þá og "af hverju ertu að læra í Danmörku" spurningin. Það kemur mörgum greinilega á óvart að það sé hægt að læra þetta heima.
En ég held að ég rakst á toppinn í vikunni. Læknirinn sem sér um okkur á spítalanum var að sýna okku hvar fötin eru geymd og svoleiðis...svo er hann að láta okkur fá hvíta tréskó sem allir á spítalanum ganga í. Þetta eru alveg svakalega óþægilegir skór og þegar við erum að máta þá sem passa okkur best þá hann minnist svona á það að þetta séu ekki þeir þægilegustu skór í heimi o.s.frv.
En þá spyr hann mig hvort við Íslendingar göngum í tréskóm heima á Íslandi! Og hvort ég væri kannski vanur að ganga í svona skóm!
Ég hélt að ég yrði ekki eldri, auðvitað hélt ég að hann væri að grínast maðurinn.....en neiiiiii, þetta var ekkert grín, hann hélt í alvörunni að það væri algengt að við Íslendingar gengu í tréskóm....................fífl!
Þegar ég var lítill hugsaði ég stundum hvort ég gæti verið með vampírublóð í mér. Kannski var það af því að mér fannst svo gaman að horfa á vampírumyndir og er með ofvirkt ímyndunarafl...en við skulum ekki pæla of mikið í svona hlutum :) . Ástæðan er sú að ég hef alltaf verið svo rosalega næturmanneskja. Það er ekki fyrr en á kvöldin sem ég kemst í almennilegt stuð, og ég vakna aldrei almennilega fyrr en eftir hádegismat sama hversu snemma ég vakna.
Og það hefur svo sannarlega reynt á þetta þegar maður þarf að vakna klukkan 5 á hverjum morgni, og það hefur ekki verið auðvelt að breyta líkamsklukkunni. En það hefur gengið ágætlega, mættur snemma í rúmið klukkan 20:30 og sofnaður uppúr níu...aldrei á æfinni hef ég gert það áður. Og ég vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að gera það aftur.
Svo í morgunn þegar ég ætlaði svoleiðis að njóta þess að sofa út eftir erfiða viku þá vaknaði ég alveg útsofinn og eldhress klukkan 08:00 .... og það var ekki mjög vinsælt hinum megin í rúminu hehe :)
En nóg í bili...klukkan er að nálgast miðnætti, háttatími komin ;)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið lýst mér á þig kall, ert svo að standa þig!!! Breiðhyltingum til sóma, þar sem fæstir eru búnir með stúdentinn... ehm.. þar með talin ég.

Nafnlaus sagði...

Vá rosalega er þetta spennandi hjá þér... sé þig fyrir mér eins og læknanemana í Grey's Anatomy, sem ég er alveg húkt á;) En annars held ég að þetta verði ekkert nema skemmtilegt hjá þér, þótt þú þurfir að vakna klukkan 5. Gangi þér vel:D