26. okt. 2007

Hálfnað verk þá hafið er

...Ég hef öðlast nýjan skilning á þessu gamla góða málshætti. Þannig er það nú í mínu lífi þessa daganna, og reyndar flesta síðan ég byrjaði í þessu námi, þá eru nánast allir dagar nákvæmlega eins. Maður vaknar og veit að maður þarf að drífa sig að lesa. Ef maður vaknar aðeins seinna segjum klukkan 10 þá bölvar maður sér vitandi það að maður ætti núna að vera búinn að borða, mættur á bókasafnið og a.m.k. búinn að lesa í klukkustund.

Með þetta á heilanum alla daga þá er oft erfiðara fyrir mig að vakna þar sem að ennþá er ekki nógu langt í prófin svo að stressið vekji mig og haldi mér gangandi. Ég meina hversu spennandi er það að vakna þegar það eina sem bíður eftir þér eru 8 klst á bókasafninu hangandi yfir bókunum í alltof þungu lofti og ekki geta opnað gluggann því að honum er alltaf lokað aftur af samnemendum mínum eða starfsfólki. (Váá löng setning!)

En það sem ég er að segja er það þessi málsháttur hittir alveg í mark! Ef maður bara drífur sig af stað og byrjar á því sem maður þarf að gera...eins og t.d. í mínu tilfelli að vakna og fara niður í skóla (eða vaska upp í þínu tilfelli?)...þá er það erfiðasta að baki og maður kemur sáttur heim til sín eftir góðan dag.

Og til að slútta þessu á sambærilegum heimspekilegum nótum þá er ég með annan málshátt í bakhöndinni...maður uppskerir það sem maður sáir...þess vegna ætla ég að fara sofa núna og sá góðum fræum til þess að ég geti vaknað á morgunn :)

22. okt. 2007

Sigur Rós með Dönunum

Við hjónin skruppum í heimsókn til Kaupmannahafnar um helgina til Ingibjargar og fórum um leið á tónleika með Sigur Rós á Vega þar sem þeir frumsýndu myndina sína Heima hérna í DK ásamt að spila örlítið. Ég bjóst við því að hitta fjöldann allan af Íslendingum þarna og hafði séð fyrir mér að enda á skemmtilegu djammi með fullt af Íslendingum, en reyndin var sko allt önnur. Eina manneskjan sem við hittum var Dani sem við könnuðumst aðeins við, annars þekkti maður ekki sálu.

Þeir eru greinilega vinsælli en maður bjóst við hérna í DK, og kom það skemmtilega á óvart. En þegar ég heyrði að það hafði verið uppselt á tónleikana fyrir rúmlega viku a.m.k. þá datt mér annað í hug. Danir eru auðvitað skipuleggjarar dauðans og eru ávallt búnir að merkja í dagatölin sín með nokkurra vikna fyrirvara amk og á meðan erum við Íslendingar alveg á hinum pólnum. Við gerum sko allt á síðustu stundu og fáir af okkur vita hvað dagatöl eru, amk þegar kemur að því að skipuleggja sósjal lífið sitt.

Gat ekki verið að ástæða þess að það voru ekki neinir Íslendingar þarna bara sú að þegar þeir ætluðu að kaupa miða voru engir eftir?

En ef svo er af hverju vorum við bæði með miða...erum við að vera svona rosalega dönsk?
..............Nei það getur ekki verið, ekki ég að minnsta kosti...ég var að líta í dagatalið mitt, ég var ekki búinn að opna það síðan 20. september.