15. nóv. 2007

Ef ég væri þú myndi ég taka stigann!


(Klikka á mynd til að stækka)

14. nóv. 2007

Uppreisn brjostanna...

http://visir.is/article/20071113/FRETTIR02/71113014

Thessa throun til Islands sem fyrst takk fyrir!

11. nóv. 2007

Íslenskt símanúmer!

Já með tilkomu töfrum internetsins og mennsku hugviti erum við komin með íslenskt símanúmer hérna úti í DK.

Þið öll á Íslandi hringið einfaldlega í númerið 496-0482 og við svörum hérna í DK...og það kostar ykkur jafn mikið og að hringja í heimasíma á Íslandi.

Þannig að kæra fólk, ekki hika við að láta í ykkur heyra :)

26. okt. 2007

Hálfnað verk þá hafið er

...Ég hef öðlast nýjan skilning á þessu gamla góða málshætti. Þannig er það nú í mínu lífi þessa daganna, og reyndar flesta síðan ég byrjaði í þessu námi, þá eru nánast allir dagar nákvæmlega eins. Maður vaknar og veit að maður þarf að drífa sig að lesa. Ef maður vaknar aðeins seinna segjum klukkan 10 þá bölvar maður sér vitandi það að maður ætti núna að vera búinn að borða, mættur á bókasafnið og a.m.k. búinn að lesa í klukkustund.

Með þetta á heilanum alla daga þá er oft erfiðara fyrir mig að vakna þar sem að ennþá er ekki nógu langt í prófin svo að stressið vekji mig og haldi mér gangandi. Ég meina hversu spennandi er það að vakna þegar það eina sem bíður eftir þér eru 8 klst á bókasafninu hangandi yfir bókunum í alltof þungu lofti og ekki geta opnað gluggann því að honum er alltaf lokað aftur af samnemendum mínum eða starfsfólki. (Váá löng setning!)

En það sem ég er að segja er það þessi málsháttur hittir alveg í mark! Ef maður bara drífur sig af stað og byrjar á því sem maður þarf að gera...eins og t.d. í mínu tilfelli að vakna og fara niður í skóla (eða vaska upp í þínu tilfelli?)...þá er það erfiðasta að baki og maður kemur sáttur heim til sín eftir góðan dag.

Og til að slútta þessu á sambærilegum heimspekilegum nótum þá er ég með annan málshátt í bakhöndinni...maður uppskerir það sem maður sáir...þess vegna ætla ég að fara sofa núna og sá góðum fræum til þess að ég geti vaknað á morgunn :)

22. okt. 2007

Sigur Rós með Dönunum

Við hjónin skruppum í heimsókn til Kaupmannahafnar um helgina til Ingibjargar og fórum um leið á tónleika með Sigur Rós á Vega þar sem þeir frumsýndu myndina sína Heima hérna í DK ásamt að spila örlítið. Ég bjóst við því að hitta fjöldann allan af Íslendingum þarna og hafði séð fyrir mér að enda á skemmtilegu djammi með fullt af Íslendingum, en reyndin var sko allt önnur. Eina manneskjan sem við hittum var Dani sem við könnuðumst aðeins við, annars þekkti maður ekki sálu.

Þeir eru greinilega vinsælli en maður bjóst við hérna í DK, og kom það skemmtilega á óvart. En þegar ég heyrði að það hafði verið uppselt á tónleikana fyrir rúmlega viku a.m.k. þá datt mér annað í hug. Danir eru auðvitað skipuleggjarar dauðans og eru ávallt búnir að merkja í dagatölin sín með nokkurra vikna fyrirvara amk og á meðan erum við Íslendingar alveg á hinum pólnum. Við gerum sko allt á síðustu stundu og fáir af okkur vita hvað dagatöl eru, amk þegar kemur að því að skipuleggja sósjal lífið sitt.

Gat ekki verið að ástæða þess að það voru ekki neinir Íslendingar þarna bara sú að þegar þeir ætluðu að kaupa miða voru engir eftir?

En ef svo er af hverju vorum við bæði með miða...erum við að vera svona rosalega dönsk?
..............Nei það getur ekki verið, ekki ég að minnsta kosti...ég var að líta í dagatalið mitt, ég var ekki búinn að opna það síðan 20. september.

27. jún. 2007

Fréttainnskot

Já smá fréttainnskot.

Karlinn orðinn enn einu árinu eldri í dag, aldurinn er smá saman að setjast yfir mann, og ég stóðst prófið mitt...þá er einu ársprófinu minna á næstu önn sem verður þvílíkt nice.

Þá eru allir ánægðir :)

Hilsen.

15. jún. 2007

Glæpamaðurinn Óskar

Já það er rétt, ég var tekinn í tollinum síðustu helgi á leið inn í landið með heila danska spægipylsu handa mömmu minni...og það var sko ekkert grín þar á bæ.
Já þetta var alveg háalvarlegt mál og gróft brot á íslenskum lögum, fékk að heyra setningar eins og "Veistu hvað þú ert með í töskunni?" (með alvarlegri röddu talað niður til mín) á meðan hann dró mig inn og bað mig að opna töskuna.
Já spægipylsan hirt og sekt upp á 600 kr skellt á mig! Á tímabili hélt ég að ég væri í sjónvarpinu að gera grín í mér en það var sko ekkert grín.
En jæja þetta var nú bara 600 kall og skiptir kannski ekki svo miklu máli...vildi bara að það væri hægt að koma betur fram við mann og meira á kurteisisnótunum í staðinn að tala við mann eins og maður er að flytja fíkniefni inn í landið. Þetta var næstum því þess virði að fá að upplifa svona grínþátt.
Hasarinn byrjaði strax á mánudaginn þegar ég byrjaði að vinna á hjúkrunarheimili. Á fyrstu 2 dögunum snérust augun í mér eftir að hafa reynt að muna yfir 40 nöfn og alla helgisiði og sérþarfir sem allir vistfólkið hefur. Þetta er allt saman að koma smá samam og ég hlakka bara til sumarsins.
Annars er ekki mikið af segja nema ég hlakka til að sjá alla í sumar.

8. jún. 2007

Ó Ísland

Nú sit ég hérna fyrir framan tölvuna klukkan eitt eftir miðnætti á nærbuxunum einum saman, það er einfaldlega of heitt. Það þýðir ekkert að opna gluggann, loftið haggast ekki. Það er engin leið út úr þessu. Og það er ekki gott fyrir manneskju eins og mig. Það er spáð 28°-29°C stiga hita hérna á næstu dögum, eins gott að ég sé að koma heim.

Ég hef alltaf verið með háan thermostat, þegar flestum öðrum er kalt, þá líður mér passlega. Flestir elska þennan hita og sólina sem því fylgir og drífa sig út til að fá smá tan. Ekki ég, á sama tíma og fólkið flykkist út þá hrökkvast ég innandyra til að geta dregið andann.

Danir hafa t.d. allt annan thermostat en ég og flestir Íslendingar yfir höfuð held ég. Þeir geta setið inni á loftlausum lessal eða bókasafni og engum dettur í hug að opna glugga og hleypa smá súrefni inn...spara varman skiljið þið.

Alltaf þegar ég sest niður á bókasafnið og það er heitt úti og þungt loftið þá opna ég glugga, annars get ég ekki lesið. Og þegar ég skrepp fram aðeins frá bókunum þá er nánast alltaf án undantekningar búið að loka glugganum hjá mér. Þá horfi ég grunsemdaraugum á dönsku stelpurnar í kring sem eru búnar að vefja jakkanum og sjalinu sín utan um sig af því að þeim er svo kalt. Á sama tíma er ég að svitna. Eftir smá tíma opna ég aftur gluggann og baráttan endalausa heldur áfram.

Ég er líka nátthrafn. Líkaminn minn vaknar að fullu fyrr en um hádegi og þegar sólin er að setjast er ég fyrst að komast í gang. Þess vegna var ég ánægður að heyra um að það eru fleiri en ég í sömu aðstæðum. Hérna í DK er búið að stofna félag (B-Samfundet) fyrir fólk sem eru með öðruvísi líkamsklukku og berjast fyrir því að þjóðfélagið viðurkennir að þetta er okkar eðli og hættir að neyða okkur að byrja vinna svona snemma má morgnanna. Það er ósanngjarnt, ekki í samræmi við okkar eðlilegu líkamsklukku og ætti ekki að vera leyfilegt í frjálsu samfélagi.

Þetta finnst mér flott, ég er að hugsa um að gerast meðlimur....ég er B-manneskja!

Annars er lesturinn búinn og ég er formlega kominn í sumarfrí! Ég kem heim um helgina, hlakka til að hitta alla.

2. jún. 2007

Fotosensitiv

Í dag sat ég úti í sólinni í ca klst og ég kom heim brenndur.
Það kemur jú ekki á óvart þar sem ég hef ekki stigið mikið út í sólina síðustu vikur og er sennilega búinn að koma mér upp góðri ljósfælni. Húðin á mér ræður ekki við of mikið sólarljós...bara ljósgeislana frá lömpunum á bókasafninu. Ég held líka að ég er byrjaður að ljóstillífa við þá bylgjulend sem lamparnir gefa frá sér...evulution of the species.
Önnur ástæða er sú að ég er kominn með porfyri (e. porphyria). Sumir segja að þessi sjúkdómur getur útskýrt uppruna vampíra í gamla daga. Fólk verður viðkvæmt fyrir sólarljósi, húðin verður föl og gómarnir geta skaðast og látið tennurnar virka vera stærri. Fólki vantar hemoglobin og í gamla daga var fólk látið drekka dýrablóð við blóðleysi...kannski fóru einhverjir að drekka mannablóð
.
Kannski á ég eftir að byrja drekka mannablóð! Hver veit...stay tuned!
En hvað sem gerist fyrir mig þá kem ég heim eftir ca 2 vikur...hlakkar ekki öllum til :)

26. maí 2007

Sá í fréttunum um daginn að þegar Clinton og Kofi Annan voru hérna í heimsókn að maður hafti staðið 5 metra frá bílnum hans Clintons með hlaðna haglabyssu og engin fattaði neitt.

Mál voru þannig með vexti að maður var á leiðinni heim eftir að hafa verið á veiðum og keyrði á hjört eða eitthvað svoleiðis dýr...eða réttara sagt þá keyrði konan hans á dýrið en það skiptir engu :)

Maðurinn s.s. fer og sækir haglabyssuna til að aflífa dýrið og á meðan hann stendur með hlaðna byssu þá keyrir öll bílalestin framhjá...Clinton var í ca 5 metra fjalrægð frá honum þegar þeir keyrðu framhjá...hann hringdi síðan sjálfur í lögregluna til að láta vita af þessum "öryggisbrest".

18. maí 2007

Svart og hvítt

Síðustu tvær kvikmyndir sem ég hef séð hafa gjörsamlega verið eins og svart og hvítt, sjaldan hef ég upplifað jafn gífurlegan mun á kvikmyndaupplifun.

Fyrst sá ég myndina Children of Men um daginn og þvílík upplifun, þvílíkt meistaraverk. Eftir langt þurrkatímabil yfir sjónvarpinu og í kvikmyndahúsum endurreisti þessi mynd trú mína að ennþá er hægt að gera góðar kvikmyndir, alvöru kvikmyndir.
Þessi mynd hafði allt, sögusviðið frábært, handritið frábært, leikararnir stóðu sig mjög vel, en það var leikstjórnin og kvikmyndatakan setti þessa mynd gjörsamlega upp á annan stall en flestar myndir. Ég horfði á myndina aftur daginn eftir....það gerist nánast aldrei fyrir mig, ég held að ég þurfi ekki að segja meira.

Bara gerið það fyrir mig og sjáið þessa mynd.

Seinni myndin sem ég sá var í kvöld í bíó. Það var Spiderman 3. Sjaldan hef ég séð eins mikla bandaríska klisju og þvælu. Eini ljósi punkturinn í myndinni voru tæknibrellurnar og hasaratriðin sem voru mjög vel gerð. En allt annað liggur á botni kvikmyndabrunnsins. Handritið var jafn þunnt og frumuhimna, leikararnir voru langt frá sínu besta...eða kannski var þetta bara þeirra besta. Leikstjórn og kvikmyndataka í lágmarki og til að setja síðustu kúlunna inn í hausinn á mér þá var hver mínúta troðfull af ekta bandarískri klisju og þvælu sem gerði það að verkum að ég ældi næstum því þegar myndir var hálfnuð. (Auðvitað hafa þeir risastóran bandarískan fána blaktandi í bakgrunninum þegar spiderman stekkur óhræddur í lokabardagann til að sigrast á vonda kallinum og bjarga dömunni....það gerist ekki mikið þynnra né klisjulegra en þetta)

Nú verður fólkið þarna í Hollywood aðeins að taka sig á því að ef þetta er framtíðin í kvikmyndagerð þarna vestan hafs þá er framtíðin ekki björt hjá þeim.

Og hvað með almenningin þarna í BNA? Þarf ekki að gera betur en þetta? Gerir fólk engar kröfur þegar það fer í kvikmyndahús? Er þeim alveg sama eða er þetta bara það sem það vill? Er fólkið svona eins og hestar með svona leppa fyrir augunum svo að þeir sjái ekki út undan sér...eða er það bara svona heimskt?

Hvað finnst ykkur sem lesa þetta? Er ég með svona skrýtinn smekk eða eru einhver sannleikskorn í þessu hjá mér.

Hver sú besta og versta kvikmynd sem þið hafið séð nýlega? Allra tíma?

21. apr. 2007

Allt og ekkert

Já það er s.s. allt og ekkert að frétta af mér þessa daganna.

Nei bíðið....við nánari tilhugsun þá er ekkert að frétta.

Ég fann litla blaðagrein sem ég hafði rifið úr fréttablaði fyrir örugglega mánuði síðan...hún hafði grafist undir einhverju drasli hérna á skrifborðinu.
Anyways...af hverju ætti ég að rífa einhverja blaðagrein úr blaðinu? Jú ég var harðákveðinn í því að blogga um þessa grein um leið og ég kæmi heim úr skólanum! Það var víst aðeins lengri biðtími en ég hafði búist við :)

Anyways...(af hverju er ég að segja anyways, ég segi aldrei anyways?)

.....Anyways, hérna í Danmörku er gjörsamlega hægt að taka kúrsa í öllu og fá menntun í nánast hverju sem er...og út af því þá er oft ekki hægt að fá vinnu á mörgum sviðum ef maður hefur ekki rétta menntum og plöggin til að sanna það (en það skiptir ekki máli núna). Hér getur maður menntað sig í kassaafgreiðslu í verslun t.d. og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hélt að ég hefði séð botninn í þessum málum, en annað kom sko upp á teninginn.

Anyways (svona af því að maður er byrjaður í þessu þá verður maður að gera þetta með stæl)...þá er verið að kynna í þessari grein splunkunýjan kúrs sem á að leiðbeina umönnunarfólki aldraða í "kynlífsleiðbeiningu heilaskaðaða". Markmiðið kúrsins er að kenna ummönnunarfólki hvernig á að hjálpa öldruðum og heilasköðuðum í að stunda kynlíf saman. Það er víst oft erfitt og þess vegna er nauðsynlegt að hafa starfsmann til staðar til að hjálpa til og þá þarf auðvitað að hafa menntaðan einstakling til að allt gangi vel.

Kúrsinn fór fram í Hammel og kostaði 12.500 DKK (ca. 150.000 ISK) fyrir hvern þátttakenda...einhverjir sem bjóða sig fram?

17. apr. 2007

Sól og blíða

Já í gær fór hitinn upp úr öllu veldi og við tókum á það ráð að skella okkur út í blíðuna og spila gamalt víkingaspil "Kubbs". Og ég held að ég nefni ekkert hvernig þetta endaði...annars gæti ég ekki fengið neitt að borða næstu 2 vikur :)

Hvernig er annars veðrið á Íslandi??

Svo fór ég að spá hversu mikið af efni ég væri virkilega að nota fyrir 2 ársprófin sem ég er að fara í núna í vor...vísindamaðurinn ég tók mér pásu frá lærdómnum og safnaði saman öllu því drasli sem ég er að nota (og það sem ég á að nota). Útkoman var alveg ágæt fannst mér.


Hildur að reyna fella kubbana mína...gengur ekki alveg nógu vel :)


Þvílík tækni!


Hversu nálægt getur maður verið að fella kubb af 8 metra færi?


Hvað segið þið...nóg efni í 2 próf? Nei nei, hvaða rugl, bætum aðeins á þetta!

24. mar. 2007

Stafagláp og heilatroðsla

Þannig er líf mitt þessa daganna. Stafur eftir staf, orð eftir orð, setning eftir setningu, blaðsíða eftir blaðsíðu, kafla eftir kafla, bækur eftir bækur.

Ég man góðu dagana í FB. Ég var duglegur að mæta í tíma, læra og gera heimaverkefni og fyrir próf þá tók ég upp bækurnar kvöldið fyrir próf, las fram eftir nóttu, svaf 2-4 tíma og fékk góðar einkunnir...allir ánægðir, ekkert stress.
Ég hafði tíma fyrir að æfa af fullum krafti og sinna öllum félagslegum þörfum...ég sakna þeirra tíma.

Nú eru þeir dagar farnir. Ég tek upp bækurnar 2 mánuðum fyrir próf, les fram eftir nóttu alla daga og hugsa um ekkert annað...en samt krossa ég fingurna nóttina fyrir próf og vona að ég nái prófinu, enga svaka einkunn, bara ná, svo að ég þurfi ekki að gera þetta aftur.

Í grunnskóla vöruðu kennararnir okkur við framhaldsskóla. Í framhaldsskóla vöruðu kennararnir okkur við háskóla.
Það er ekki ennþá búið að vara mig við í háskóla...ég veit ekki hvort það sé gott eða slæmt.

Fyndið að hugsa út í hvernig hlutir breytast eftir því úr hvaða sjónarhorni maður tekur eftir þeim.

.....................................................

Blogga ég svona í hverri próftíð? Ég var að lesa þetta...hljómar eins og erfðaskrá, eins og minn síðasti viskumoli til alheimsins og næstu kynslóðar. Mikið svakalega verður maður djúpur á þessum tímum.

En ef maður verður of djúpur þá getur maður tapast.....djúúúpt Óskar!

En ég veit að ég hlakka til að komast heim, ég er ekki búinn að koma heim til Íslands í næstum 8 mánuði...það verður gott að koma heim í kuldann og finna lyktina af ferska loftinu og drekka vatnið.

21. feb. 2007

London 2007

Jæja langt síðan síðast. Margt er búið að gerast síðan síðast. Síðast þegar ég bloggaði var ég í fýlu, núna er ég ekki í fýlu.

Við skelltum okkur til London (ég, Hildur og Guðný)! Það var alveg frábær ferð og við fengum frábæra aðstöðu hjá Heiði og Jóa ásamt ótrúlega góðri leiðsögn út um allt, takk kærlega fyrir okkur...betra seint en aldrei ekki satt :) Það var rosalega gaman að koma til London, við tókum góðan ferðamannapakka á þetta, London Eye, London Aquarium, Lion King söngleikinn, pöbbarölt, trúristarölt hjá Big Ben, Camden Town, Tower Bridge, Tower of London, London Wall svona þannig að það helsta sé nefnt. Einnig vorum við orðin sérfræðingar í neðanjarðarlestakerfinu og vorum við byrjuð að "fljúga" á milli staða undir lokin.



Hildur og Jói komust að því að þau voru alveg eins klædd...alveg óvart!


Maður sér ekki svona pöbb á Íslandi.


Traustvekjandi í 130 m hæð...einmitt!



Öryggisverðir að athuga hvort við skyldum eftir sprengju í hylkinu okkar.


Sjáið þið flatfiskinn? (Ekki þessi uppi til hægri)



Hið fríða föruneyti


Næsta á dagskrá er árshátíð íslenskra læknanema í Danmörku í Odense næstu helgi:)

31. jan. 2007

Þunglyndi (uppfært)

Ég mætti ekki í skólann í dag...

--------------------------------------------------------------------------------------------

En ég fór hins vegar á æfingu seinna í dag. Ég var líka á báðum áttum hvort ég ætti að fara á æfingu líka, var heldur ekki spenntur að hitta alla þessa dani, en ég skellti mér. Að sjálfsögðu var það fyrsta sem ég heyrði var DANMARK!!! Einn strákurinn kom inn í klefa hrósandi sigri, ég var ekki ánægður, brosti bara og þagði.

Og það koma seinna í ljós þegar æfingin var byrjuð að ég hefði ekki getað fengið betri útrás! Hvað er betra en að fá að sparka að vild í fullt af dönum eftir svona leik! Ég naut þess. Í hverju sparki hugsaði ég:

Af hverju fór boltinn í stöngina...og dúndraði í danann
Af hverju skoruðu þeir á síðustu sekúndu...og dúndraði í danann
Af hverju varði Kasper Hvidt eins og brjálæðingur...og dúndraði í danann
Af hverju varði okkar markmaður ALDREI!....og dúndraði í danann
Hvað var Logi að hugsa þegar hann gaf dönunum boltann í staðinn fyrir að komast 2 mörkum yfir....og dúndraði í danann
Af hverju, af hverju, af hverju!!! .....og sparkaði eins fast og ég gat.

Og þannig var þetta alla æfinguna....og það var gott. Ég tel mig vera í nógu góðu jafnvægi til að fara í skólann á morgunn án þess að slá þann fyrsta niður sem talar dönsku við mig.
Já ég held að ég geri það, ég er búinn að fá mína útrás...djöfull var það gott.

30. jan. 2007

Áfram Ísland!

Góði guð.

Láttu Ísland vinna í kvöld.

Ég get með engu móti mætt í skólann á morgunn ef við töpum og horft á glottin á 200 dönum sem verða með mér á fyrirlestri og hvað þá bekknum mínum.


Leyfðu mér að mæta á morgunn með bros á vör og geta hrósað sigri yfir öllum þeim dönum sem ég mæti.

Strákar, sýnið þessum Dönum að við erum ekkert "bara" litla Ísland lengst úti í hafi, sýnið þeim hvernig á að spila handbolta og sendið þá heim með skottið á milli lappanna. Ef ykkur tekst það þá verð mun dvöl mín á þessu landi vera svo miklu betri það sem eftir er.

Áfram Ísland!!!

Amen.

12. jan. 2007

Fólk er ótrúlegt

Þegar ég horfði á Jay Leno stundum þá voru uppáhaldsatriðin mín þegar hann tók viðtöl við nýútskrifaða stúdenta og spurði þá alls konar spurninga um almenna vitneskju, eitthvað sem allir eiga að vita og jafnvel eitthvað sem þeir eiga pottþétt að kunna þar sem þeir eru nýútskrifaðir.

Og það er alveg ótrúlegt að heyra í hvaða heimi sumt fólk lifir í. Sumir hafa ekki grænan grun hvað er að gerast í heiminum í kringum sig...það er að segja út fyrir bæjarmörkin sem þau búa í...né um sögu síns eigin lands.

En það eru orðin langur tími síðan ég sá svona atriði en um daginn rakst ég á svipað atriði á netinu. Hér er Ástrali að taka viðtöl við fólk í BNA og það er alveg drepfyndið hvað fólk getur verið heimskt.

Ég spyr bara aftur...í hvaða heimi á þetta fólk heima?

2. jan. 2007

Áramótaskaup

Gleðilegt nýtt ár öll sömul og takk kærlega fyrir það gamla.

Þá eru mamma og pabbi lögð af stað heim eftir alveg frábær jól og áramót hérna úti...sem eru líka þau fyrstu ekki á Íslandi...ég vil þakka þeim kærlega fyrir að koma hingað til okkar :)

Ekki var mikið um flugelda hérna, enda hefur maður svo fáránlegan samanburð frá Íslandi...útlendingar sem eru á heima um áramót segja að við erum bara gengin af göflunum! Kannski er eitthvað til í því :)

Ég var fyrir miklum vonbrigðum með áramótaskaupið þetta árið, ekki er það í fyrsta skiptið þegar ég fer að hugsa út í það, en þetta árið fannst mér skaupið vera mjög lélegt. Það voru að sjálfsögðu nokkur mjög skemmtileg atriði, þau þurftu bara að vara fleiri :)

Mér finnst líka kominn tími til að Jón Gnarr dragi sig aðeins í hlé...hann hefur ekki verið fyndin síðan úr fyrstu seríunni í Fóstbræðrum og fannst mér hann vera með lélegustu atriðin í skaupinu.

En hvað finnst ykkur hinum? Ég vil endilega fá comment hjá ykkur og heyra ykkar skoðun.